Fóstra minnst í dánartilkynningu

Átta vikna gamalt fóstur. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki beint.
Átta vikna gamalt fóstur. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki beint. Reuters

Dánartilkynning birtist í dag í nokkrum spænskum dagblöðum fyrir hönd hinna „saklausu fórnarlamba" fóstureyðinga á Spáni, en fyrr í þessum mánuði voru samþykkt mun umburðarlyndari lög um fóstureyðingar en áður þekktust í landinu.

Dánartilkynningin er merkt svörtum krossi sem sagður er standa fyrir „alla þá drengi og stúlkur sem dóu sem fórnarlömb fóstureyðinga á Spáni 2009" og birtist á minningargreinasíðum íhaldsblaðanna ABC, El Mundo og La Razon.

„Við biðjum fólk um að færa fórnir, vinna góðgerðastörf og biðja fyrir sálum þeirra og fyrir fyrirgefningu þeirra sem beint eða óbeint báru ábyrgð á dauða þeirra," segir í tilkynningunni.

Sex héraðsblöð birtu einnig tilkynninguna, en miðjublaðið El País neitaði hinsvegar að birta hana, að því er segir á kaþólsku fréttasíðunni InfoCatolica. Þann 17. desember samþykkti neðri deild spænska þingsins frumvarp þar sem fóstureyðingar eru gerðar leyfilegar fram að 14 viku meðgöngu og allt fram til 22 viku ef móðurinni stafar hætta af meðgöngunni eða ef fóstrið er verulega gallað. Frumvarpið er í samræmi við lög flestra landa Evrópusambandsins. Það fer nú eftir áramót fyrir efri deild þingsins áður en það verður endanlega samþykkt.

Samkvæmt fyrri lögum, sem giltu frá árinu 1985, voru fóstureyðingar aðeins leyfilegar á Spáni í tilfelli nauðgunar, vanþroska fóstursins eða ef líkamleg eða andleg heilsa móðurinnar var talin vera í hættu.

Á síðasta ári voru um 115.000 fóstureyðingar framkvæmdar á Spáni, flestar á grundvelli þess að heilsa móðurinnar væri í hættu. Hundruð þúsunda kaþólskra Spánverja tók þátt í götumótmælum í Madrid í október til að fordæma fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert