Pólverjar gjalda varhug við evrunni

Varsjá í Póllandi.
Varsjá í Póllandi.

53%  Pólverja telja að upptaka evrunnar muni koma illa við budduna, samkvæmt þarlendri könnun sem birt var í dag. Niðurstöðurnar sýna einnig að aðeins 15% svarenda telja að evran muni koma sér vel fyrir þá persónulega, 17% telja að upptaka evru hefði engin áhrif og 15% hafa ekki skoðun á málinu.

Pólland gekk í Evrópusambandið árið 2004 og markmið yfirvalda þar hefur verið að skipta út hinu pólska zloty fyrir evruna fyrir árslok 2012. Vegna heimskreppunnar á ríkisstjórnin nú í auknum vandræðum með að uppfylla skilyrði evrusvæðisins og hefur áætlunin því verið sett á salt í bili. Forsætisráðherra landsins, Donald Tusk, hefur sagt að hugsanlega verði af gjaldmiðilsskiptunum árið 2015.

Könnunin sem birt var í dag leiddi í ljós að 36% pólsku þjóðarinnar trúir því að upptaka evru hefði jákvæð áhrif á efnahag þjóðarinnar í heild, en 31% telja hinsvegar að hún hefði slæm áhrif. 9% telja að efnahagsástand landsins yrði óbreytt með evru og 24% hafa ekki skoðun á málinu. 1.002 þátttakendur svöruðu könnuninni.

16 af ESB löndunum 27 nota nú evru sem sinn gjaldmiðil.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert