Árekstur á hrefnumiðunum

Afar fullkominn hraðbátur, sem umhverfisverndarsamtökin Sea Shepherd notuðu til að trufla japanska hrefnuveiðimenn í Suðurhöfum, eyðilagðist þegar hvalveiðiskip sigldi á hann og klauf í tvennt.

Báturinn,  Ady Gil, var þríbytna sem á hraðamet í siglingu umhverfis jörðina. Sea Shepherd leigði bátinn í leiðangur til að trufla hrefnuveiðar Japana. Sex manna áhöfn var á bátnum þegar hann lenti í árekstri við hvalveiðiskipið Shonan Maru No 2 og var öllum bjargað yfir í annað skip samtakanna, Bob Barker.

Í yfirlýsingu frá Sea Shepherd segir, að japanska skipið hafi siglt vísvitandi á Ady Gil. Við áreksturinn brotnaði stór hluti af hraðbátnum og hann er nú að sökkva. 

Hvalveiðimennirnir sögðu, að áhöfnin á Ady Gil, fimm Nýsjálendingar og einn Hollendingur, hefðu verið að reyna að flækja reypi í skrúfu og stýri hvalveiðiskipsins og þeir hefðu einnig miðað leysigeislum á áhöfn hvalveiðiskipsins og kastað fýlusprengjum á hana.  

Japanska sjávarspendýrarannsóknastofnunin segir í yfirlýsingu, að aðgerðir Sea Shepherd séu stöðugt að verða ofbeldisfyllri og séu glæpsamlegar. Paul Watson, leiðtogi samtakanna, segir hins vegar að árlegar aðgerðir þeirra gegn Japönum hafi nú snúist upp í algert stríð.  

Báturinn Ady Gil, sem smíðaður var úr koltrefjaefni, var einn þekktasti bátur heims. Árið 2003 fór hann umhverfis jörðina á hálfum mánuði. Hann hét þá Eartrace. Watson segir, að tap Sea Shepherd vegna bátstapans sé um 2 milljónir dala.  

Félagar í Sea Shepherd á bátnum Ady Gil.
Félagar í Sea Shepherd á bátnum Ady Gil. Reuters
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert