Var að hefna fyrir morðið á Mehsud

Jórdani sem sprengdi sig upp í Afganistan og myrti sjö liðsmenn bandarísku leyniþjónustunnar CIA í lok síðasta árs, segir að ástæðan fyrir sjálfsvígstilræðinu sé hefnd. Í dag var myrt myndband þar sem hann greinir frá fyrirhugaðri hefnd sinni.

Jórdaninn, sem var 32 ára að aldri, lék tveim skjöldum og var álitinn einn af mikilvægustu heimildarmönnum CIA úr röðum liðsmanna hryðjuverkasamtakanna al-Qaeda þar til hann varð sjö CIA-mönnum að bana í sprengjutilræðinu í Afganistan þann 30. desember sl.

„Við segjum stríðsherra okkar, Baitullah Mehsud, að við munum aldrei gleyma blóði hans. Það er okkar að hefna hans bæði í og utan Bandaríkjanna, segir  Humam Khalil Abu-Mulal al-Balawi, í myndskeiðinu. 

Pakistanski stríðsherrann og talibanaleiðtoginn Mehsud féll í árás Bandaríkjahers  í ágúst í fyrra en hann var álitinn hættulegasti óvinur Pakistans. Hann er talinn hafa skipulagt sprengjuárásir sem kostuðu hundruð manna lífið. s

„Þetta eru skilaboð til óvina múslimaríkja - CIA og leyniþjónustu Jórdaníu, segir Balawi í myndbandinu sem birt er á Al-Jazeera sjónvarpsstöðinni í dag.

Bandaríska dagblaðið The New York Times skýrði frá því í vikunni að leyniþjónustan hefði álitið al-Balawi vera mikilvægasta heimildarmann sinn í mörg ár um fylgsni forsprakka al-Qaeda, meðal annars Aymans al-Zawahiris, næstæðsta leiðtoga hryðjuverkasamtakanna.

Al-Balawi afplánaði fangelsisdóm í Jórdaníu fyrir að hvetja til árása á Bandaríkin en jórdanska leyniþjónustan hélt að hún hefði talið hann á að snúast gegn félögum sínum úr röðum íslamista. Al-Balawi veitti jórdönsku leyniþjónustunni upplýsingar um lágt setta félaga í al-Qaeda og þær urðu til þess að hún kom honum í samband við CIA. Hann ávann sér svo mikið traust að bandarísku leyniþjónustumennirnir létu hjá líða að leita á honum fyrir fundinn með honum í Afganistan þegar hann sprengdi sprengju sem hann hafði falið innanklæða. Sjö leyniþjónustumenn biðu bana í sprengingunni og er þetta mannskæðasta árás á CIA-menn í mörg ár.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert