Treður frumvarpinu ekki í gegn

Scott Brown, nýkjörinn öldungadeildarþingmaður Massachusetts og repúblikani, ávarpar fjölmiðla eftir …
Scott Brown, nýkjörinn öldungadeildarþingmaður Massachusetts og repúblikani, ávarpar fjölmiðla eftir að sigur hans á demókratanum Mörthu Coakley. ADAM HUNGER

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, varaði demókrata í öldungadeild Bandaríkjaþings við því að reyna að troða frumvarpi hans um breytingar á sjúkratryggingakerfinu í gegn, eftir að repúblikaninn Scott Brown vann kosningar í Massachusetts um sæti í öldungadeildinni.

Sagði Obama í viðtali við ABC News að ekki ætti að kjósa um frumvarpið fyrr en Brown hefði tekið sæti. Þingmenn ættu að reyna að sameinast um þá þætti frumvarpsins sem þeir væru sammála um. Scott Brown er fyrsti repúblikaninn sem fær öldungadeildarsæti fyrir Massachusetts síðan árið 1972.

Sigur hans þýðir að repúblikanar hafa nú nægan styrk í öldungardeildinni til þess að stöðva fyrirætlanir demókrata um breytingar á heilbrigðiskerfinu. Fréttaritari BBC í Boston, Paul Adams, segir að ósigurinn hafi verið auðmýkjandi fyrir demókrata, sem áður höfðu sextíu sæta meirihluta sem gat varist málþófi. Þetta hafi verið sérstaklega óheppilegt fyrir Obama, á ársafmæli forsetatíðar hans.

Brown, sem er fimmtugur að aldri, sagði blaðamönnum í dag að sigur hans hefði sent út þau skilaboð að fólk væri orðið þreytt á því að stjórnmálin gengju sinn vanagang í Washington. Hann hét því að hefjast handa eins fljótt og hann gæti. Hann hygðist fara til Washington strax á morgun og taka sæti í öldungadeildinni.

Áður hefur Brown sagt, í viðtali við NBC sjónvarpsstöðina, að hann teldi ekki að kosningin um öldungadeildarsætið væri mælikvarði á fyrsta ár Obama á forsetastóli. Hann neitaði því einnig þar að hann væri ákveðinn í því að setja tryggingafrumvarp forsetans út af sporinu.

„Ég hef aldrei sagt að ég ætli að gera allt sem í mínu valdi stendur til að stöðva heilbrigðisþjónustuna," sagði hann. ,,Ég er á þeirri skoðun að allir eigi að hafa aðgang að heilbrigðisþjónustu. Þettaer bara spurning um það hvernig við gerum það."

Þegar Obama var spurður á ABC hvernig hann mæti sigur repúblikanans í Massachusetts svaraði forsetinn því til að það sama hefði skilað Scott Brown inn í öldungadeildina, eins og það sem skilaði honum sjálfum í forsetaembættið. ,,Fólk er reitt og það er pirrað. Ekki bara vegna þess sem hefur gerst á síðustu tveimur árum, heldur vegna þess sem hefur gerst síðustu átta árin."

Hann þvertók fyrir að demókratar ætluðu að setja málið í gegn áður en Brown fengi tækifæri til að taka sér sæti í þingsal. ,,Öldungadeildin ætti svo sannarlega ekki að reyna að troða einu né neinu í gegn áður en Scott Brown hefur tekið sætið. Fólkið í Massachusetts sagði sitt. Hann verður að fá að vera hluti af þessu ferli.

Scott Brown
Scott Brown ADAM HUNGER
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert