Tólf ára stúlka hættir við skilnað

Engin lög banna hjónabönd barna í Sádí-Arabíu
Engin lög banna hjónabönd barna í Sádí-Arabíu Reuters

Tólf ára gömul stúlka í Sádi-Arabíu hefur hætt við beiðni sína um skilnað frá áttræðum eiginmanni sínum. Faðir stúlkunnar neyddi hana í hjónaband með manninum og fékk greiddan heimamund fyrir dóttur sína sem endurgjald frá eiginmanninum. Greint er frá þessu í fjölmiðlum í Sádi-Arbaíu í dag.

Þrátt fyrir stuðning frá mannréttindalögfræðingum og barnaverndaryfirvöldum þá hætti stúlkan við, sem sótti málið með stuðningi móður sinnar, þegar taka átti það fyrir í Buraidah í Al-Qasim héraði, í gær. Foreldrar stúlkunnar eru skilin.

Sagði stúlkan fyrir rétti að hún hafi samþykkt að ganga í hjónaband með manninum, að því er segir í frétt dagblaðsins Okaz.

Samkvæmt fréttum þá fékk faðir stúlkunnar greiddar 85 þúsund riyals, tæpar þrjár milljónir króna, fyrir stúlkuna frá karlinum.

Mál stúlkunnar vakti mikla athygli í Sádi-Arabíu þegar það kom upp í síðasta mánuði en þá bað stúlkan blaðamenn um að bjarga sér úr þvinguðu hjónabandi. Móðir stúlkunnar fór fram á það við dómstól að hjónabandið yrði ógilt og sagði að stúlkunni hefði verið nauðgað. Taka átti málið fyrir í gær en þá  hafði, eins og áður sagði, móðirin fallið frá málinu.

Engin lög banna hjónabönd barna í Sádi-Arabíu. Mannréttindasamtök hafa hins vegar farið fram á að bann verði lagt við hjónaböndum barna yngri en sextán ára.

Í desember kom út þýðing á Íslandi þar sem saga Nojud Ali frá Jemen er sögð en hún vakti heimsathygli þegar hún, aðeins tíu ára, krafðist skilnaðar frá manni sem hún hafði verið gift. Henni var veittur skilnaður og hún varð að hetju sem er fyrirmynd annarra stúlkna í svipuðum aðstæðum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert