Trúboðar harðlega gagnrýndir

Forsætisráðherra Haítí, Jean-Max Bellerive, gagnrýnir tíu bandaríska trúboða harðlega sem handteknir voru er þeir reyndu að smygla 33 börnum úr landi í síðustu viku. Einhverjir foreldra barnanna eru á lífi og eru stjórnvöld á Haítí að reyna að hafa upp á þeim. Móðir fimm barna úr hópnum segir að prestur hafi sagt henni að þetta væri börnunum fyrir bestu.

Jean-Max Bellerive segir að trúboðarnir séu ekkert annað en mannræningjar og að þeir hafi vitað að þeir væru að brjóta af sér.

Talsmaður trúboðanna, Laura Silsby, segir í samtali við CNN að trúboðarnir hafi ætlað að fara með börnin á munaðarleysingjahæli í Dóminíska lýðveldinu. Hún segir að þau telji að um rangar ásakanir séu að ræða. Ekki hafi verið um mansal að ræða. Þau hafi gefið frá sér allt sem þau áttu til þess eins að bjarga þessum börnum.

Er þess vænst að dómari á Haítí taki ákvörðun í dag um hvort fólkið, fimm karlar og fimm konur, verði dregin fyrir dóm. 

Bellerive sagði í viðtali við AP fréttastofuna að ef trúboðarnir hafi verið í góðri trú þá muni dómari taka tillit til þess. Það sé hins vegar ljóst að fólkið hafi reynt að laumast yfir landamærin án tilskilinna pappíra. Eins að ekki séu öll börnin munaðarlaus. Hann segir ekkert mæla á móti því að réttarhöld yfir fólkinu fari fram í Bandaríkjunum enda séu flestar opinberar byggingar á Haítí rústir einar.

Börnin 33 sem um ræðir eru á aldrinum tveggja mánaða til tólf ára. Var farið með börnin á munaðarleysingjahæli í Port-au-Prince þar sem tíu hið minnsta sögðu starfsmönnum að þau ættu foreldra á lífi, að því er segir í frétt BBC.

„Ein stúlkan grét og sagði: ég er ekki munaðarlaus. Ég á foreldra. Hún hélt að hún væri að fara í sumarbúðir eða heimavistarskóla eða eitthvað þvíumlíkt," segir George Willeit, talsmaður SOS þorpanna.

Hann segir að börnin hafi bæði verið svöng og þyrst þegar komið var með þau og að lítið barn hafi þurft að fara á sjúkrahús vegna ofþornunar.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert