Obama hyggst ræða við Dalai Lama

Kínversk stjórnvöld gagnrýndu í morgun þá ákvörðun Baracks Obama Bandaríkjaforseta að eiga fund með Dalai Lama, andlegum leiðtoga Tíbeta. Obama tilkynnti í gærkvöldi að hann hygðist ræða við Dalai Lama þrátt fyrir hörð mótmæli Kínverja.

Talsmaður kínverska utanríkisráðuneytisins sagði í morgun að Kínverjar væru algerlega andvígir hvers konar viðræðum milli Bandaríkjaforseta og Dalai Lama. Áður hafði kínverska stjórnin gagnrýnt harðlega þá ákvörðun stjórnar Baracks Obama að selja Taívan vopn að andvirði 6,4 milljarða dollara, rúmra 800 milljarða króna.

Talsmaður Obama sagði í gærkvöldi að forsetinn hygðist meðal annars ræða mannréttindamál við Dalai Lama. Hann sagði ekkert um hvenær fundurinn yrði en gert er ráð fyrir því að Dalai Lama fari til Bandaríkjanna síðar í mánuðinum til að halda fyrirlestra í Kaliforníu og Flórída.

Dalai Lama, andlegur leiðtogi Tíbeta.
Dalai Lama, andlegur leiðtogi Tíbeta. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert