Ófærð í Danmörku vegna skafrennings

Óvenju snjóþungt er nú í Danmörku.
Óvenju snjóþungt er nú í Danmörku. Sigursteinn Sævarsson

Umferð bíla hefur gengið erfiðlega víða í Danmörku í morgun vegna skafrennings. Loka hefur þurft mörgum skólum, stofnunum og fyrirtækjum vegna slæmrar færðar, að sögn fréttavefjar danska ríkisútvarpsins.

Bílaumferðin hefur víða verið mjög hæg og margir bílar eru fastir í sköflum. Glerhált er á götum og á mörgum stöðum hafa vegir lokast.

„Margir bílstjórar komust einfaldlega ekki út úr bílunum vegna þess að þeir voru fastir í svo stórum snjósköflum að þeir gátu ekki opnað dyrnar,“ hafði fréttavefur Politiken eftir björgunarmanni. Björgunarsveitir þurftu í fjórum tilvikum að leita eftir aðstoð lögreglu við að komast að bílum sem festust í sköflum.

Lögreglan í nokkrum bæjum, meðal annars Skive, Thisted og Morsø, hefur varað fólk við því að nota bíla nema brýna nauðsyn beri til.

Lestum hefur víða seinkað vegna skafrennnings, meðal annars frá Árósum og norðan við borgina. Strætisvögnum og skólabílum hefur einnig seinkað vegna ófærðar, að sögn fréttavefjar danska ríkisútvarpsins.

Margir bílar festust einnig í suðurhluta Svíþjóðar vegna fannfergis í gær en ástandið á vegunum þar er betra núna, að sögn fréttavefjar Dagens Nyheter. Spáð er þó áframhaldandi snjókomu á svæðinu í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert