Mótmæli við komu Clintons til Haítí

Íbúar Haítí eru reiðir og vonsviknir með dreifingu hjálpargagna. Þeir …
Íbúar Haítí eru reiðir og vonsviknir með dreifingu hjálpargagna. Þeir mótmæltu við komu Bills Clinton. KENA BETANCUR

Bill Clinton, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, fékk fremur óblíðar móttökur við komuna til Haítí í dag. Reiðir íbúar höfuðborgarinnar, Port Au-Prince, mótmæltu harðlega seinagangi við dreifingu hjálpargagna. Ástæða þess að spjótunum var beint að Clinton er sú að hann hefur tekið að sér forystuhlutverk í samhæfingu hjálparstarfs.

Erfiðlega hefur gengið að koma hjálpargögnum til yfir milljón manna sem misstu heimili sitt í jarðskjálftanum 12. janúar sl. „Börnin okkar stikna í steikjandi sólinni. Við hljótum að eiga rétt á tjöldum, rétt á einhverskonar skýli,“ sagði Mentor Natacha, tveggja barna móðir, sem var á meðal mótmælenda.

Clinton sagðist sjálfur skilja reiði Haíta og furðaði sig á því að rúmum þremur vikum eftir skjálftann hafi hjálpargögn ekki borist þeim sem á þurfi að halda. „Starf mitt er að komast að því hvar flöskuhálsinn liggur, en hluti af vandamálinu er fjarlægðin á milli sextán helstu dreifingarmiðstöðva.“

Forsætisráðherra Haítí, Jean-Max Bellerive, sagði nýverið að um 200 þúsund manns hefðu farist í skjálftanum og 250 þúsund íbúðir eyðilögðust.

Bill Clinton skoðar aðstæður á sjúkrahúsi í Port Au-Prince.
Bill Clinton skoðar aðstæður á sjúkrahúsi í Port Au-Prince. EDUARDO MUNOZ
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert