Palin boðar byltingu hægrimanna

Sarah Palin flytur ræðu sína í Nashville í nótt.
Sarah Palin flytur ræðu sína í Nashville í nótt. Reuters

Sarah Palin, sem var varaforsetaefni Repúblikanaflokksins í síðustu forsetakosningum í Bandaríkjunum, vakti mikla hrifningu þegar hún flutti í gærkvöldi ræðu á þingi nýrra grasrótarsamtaka hægrimanna í Bandaríkjunum, sem nefnd eru Tea Party.

Sagði Palin að árið 2010 yrði frábært ár og hæddist að Barack Obama, Bandaríkjaforseta. Þá varaði Palin Repúblikanaflokkinn við því að sniðganga samtökin og sagðist tala fyrir hönd milljóna Bandaríkjamanna, sem vildu hvetja þessa hreyfingu til dáða.   

Repúblikanar hafa verið að ná áttum eftir að hafa tapað í forseta- og þingkosningum árið 2008. Palin sagði, að vindáttin í stjórnmálum væri að breytast, íhaldsmönnum í hag, í aðdraganda þingkosninga næstkomandi nóvember. Því til staðfestingar benti hún á sigur frambjóðanda repúblikana í aukakosningum í Massachusetts í janúar þegar Scott Brown hreppti sæti í öldungadeild Bandaríkjaþings sem Ted Kennedy, einn helsti leiðtogi Demókrataflokksins. sat í í rúma fjóra áratugi.

„Þetta er hreyfingin og Bandaríkin eru búin undir aðra byltingu og þið eruð hluti af henni," sagði Palin á fundinum, sem fór fram á hóteli í Nashville.  „Þessi hreyfing snýst um fólk, sem getur með sanni sagt að að það sé hluti af hreyfingu sem snýst um fólk og er fyrir fólkið."

Tea Party hreyfingin varð til í kjölfar forsetakosninganna í nóvember 2008 þar sem John McCain, forsetaframbjóðandi repúblikana, og Palin, töpuðu afgerendi fyrir Barack Obama. Upphaflega var hæðst að hreyfingunni en hún hefur sótt í sig veðrið hægt og sígandi.  Hreyfingin vill, að Repúblikanaflokkurinn færi sig meira til hægri.  

Til þessa hefur flokkurinn verið hikandi við að taka tillit til hreyfingar, sem hefur sem fyrirmynd svonefnda Tea Party uppreisn í Boston árið 1773 þar sem fólk reis upp gegn sköttum breska nýlenduveldisins.

„Þetta snýst um fólk og er stærra en nokkur kóngur eða drottning í teboði og þetta er mun stærra en einhver aðlaðandi náungi með textavél," sagði Palin og var greinilega að skjóta á Obama. 

Hún sagði síðar í ræðu sinni, að Obama væri eins og lagaprófessor í ræðupúlti en ekki leiðtogi þjóðarinnar. Hún sakaði ríkisstjórn hans um að huga ekki nægilega að þjóðaröryggi og vera „úr tengslum við óvininn sem við mætum." Þá sagði hún að forsetinn hefði verið seinn til að bregðast við efnahagsástandinu. 

Þetta var fyrsta stóra ræðan, sem Palin hefur flutt frá því hún sagði óvænt af sér embætti ríkisstjóra Alaska í júlí. Hún hefur síðan lítið komið fram opinberlega nema í sjónvarpsþáttum. Hún hefur hins vegar gefið í skyn, að hún kunni að vera að búa sig undir forsetaframboð árið 2012.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert