Toyoda biðst afsökunar

Akio Toyoda, stjórnarformaður Toyota, baðst afsökunar er hann kom fyrir bandaríska þingnefnd í gær vegna ítrekaðra galla í Toyota-bifreiðum.  Hefur þurft að innkalla á níundu milljón Toyota-bifreiða í heiminum vegna galla í eldsneytisgjöf og hemlakerfum. Í einhverjum tilvikum hafa dauðsföll í umferðinni verið rakin til galla í bifreiðunum.

Undanfarið hefur þurft að innkalla hálfa milljón tvinnbíla, meðal annars nýjustu útgáfuna af Prius, vegna vandamáls í bremsukerfi.

Áður hafði Toyota innkallað um átta milljónir bíla í heiminum vegna mögulegs vandamáls í eldsneytisgjöf í átta bílgerðum. Í tilkynningu um innköllun Toyota-bíla 29. janúar sl. kom fram að áætlað væri að kalla þyrfti inn rúmlega 5.000 bíla á Íslandi.

Toyoda sagði að Toyota myndi vinna náið með bandarísku rannsóknarnefndinni og tók fram að ekki hafi komið upp galli í rafbúnaði bifreiðanna líkt og haldið hefur verið fram í Bandaríkjunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert