Flóðaviðvörun í 53 löndum

Flóðaviðvörun hefur verið gefin út í 53 löndum í kjölfar jarðskjálftans upp á 8,8 stig á Richter í Chile í morgun. Að minnsta kosti 78 eru látnir í Chile og fjöldi eftirskjálfta hafa riðið yfir frá fyrsta skjálftanum. Upptök hans voru á 35 km dýpi í Kyrrahafinu.

Forseti Chile, Michelle Bachelet, hefur lýst yfir hamfaraástandi í landinu en ekki hefur náðst samband við bæi eins og Maule sem er nálægt upptökum skjálftans.

Ástandið er skelfilegt víða, eldar loga í húsum, hrundar byggingar og fólk liggur slasað á götum úti í borginni Concepcion, sem er önnur stærsta borg landsins.

Að minnsta kosti fjórir Íslendingar eru í borginni en ekki hefur náðst samband við þá enda fjarskiptasamband í molum.

Að sögn Bachelet reið risastór alda yfir eyjuna Juan Fernandez og olli nú gríðarlegum skemmdum. Önnur alda virðist hafa gengið yfir bæ í Chile og var aldan yfir 2,3 metra há.

Þekkir þú til? Sendu okkur línu á netfrett@mbl.is ef þú þekkir einhvern á svæðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert