Ísbjörn á rölti við blokkirnar

Ísbjörninn, sem skotinn var í Skagafirði hætti sér ekki jafn …
Ísbjörninn, sem skotinn var í Skagafirði hætti sér ekki jafn nálægt mannabyggð og frændi hans í Paamiut. mbl.is

Ísbjörn var felldur í morgun í bænum Paamiut á Grænlandi. Fullvaxinn karlbjörn sást á vappi innan um fjölbýlishús í bænum, að sögn grænlenska útvarpsins KNR. Haft var samband við veiðimenn í bænum. Siverth Knudsen felldi björninn og þykir það happafengur þar í landi.

Veiðimennirnir segja ísbjarnaheimsóknir sjaldgæfar þar í bæ. Bæjarbúar fylgdust spenntir með og krakkarnir fengu frí í skólanum til að skoða björninn. Knudsen veiðimaður sagði spenninginn ekki nándar nærri jafn mikinn þegar þeir veiði hval. 

Rannsaka á hvort tríkína er í ísbjarnarkjötinu áður en leyft verður að bjóða það til sölu.  Feldurinn mun enda uppi á vegg hjá Siverth Knudsen bjarndýrabana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert