SS-böðull í ævilangt fangelsi

Heinrich Boere í réttarsalnum í Aachen.
Heinrich Boere í réttarsalnum í Aachen. Reuters

Dómstóll í Aachen í Þýskalandi dæmdi í dag 88 ára gamlan fyrrverandi böðul SS-sveita nasista í ævilangt fangelsi fyrir að skjóta þrjá óbreytta borgara til bana í Hollandi árið 1944.

Maðurinn, sem heitir Heinrich Boere, slapp úr fangabúðum í Þýskalandi árið 1948 og tókst síðan að sleppa undan réttvísinni í sex áratugi. Hann hefur ekkert farið leynt með sekt sína og stærði sig af morðunum í viðtali við þýska tímaritið Focus árið 2008.

„Þetta var ekkert erfitt. Maður þurfti bara að beygja fingurinn... Bang, dauður!" sagði hann.

Boere, sem er af hollensku og þýsku foreldri, er bundinn við hjólastól. Hann sýndi engin svipbrigði þegar dómurinn var kveðinn upp í morgun. Dómarinn sagði, að Boere hefði framið morðin með tilviljanakenndum hætti og ætti sér engar málsbætur. 

Böre var dæmdur til dauða í Hollandi í fjarveru sinni árið 1949 en þeim dómi var síðar breytt í ævilangt fangelsi.  Hann starfaði sem kolanámumaður í Þýskalandi til ársins 1976. Hollensk stjórnvöld reyndu að fá hann framseldan á níunda áratug síðustu aldar en án árangurs. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert