Yfirgaf norðurhjararáðstefnu

Lawrence Cannon, utanríkisráðherra Kanada, og Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, ganga …
Lawrence Cannon, utanríkisráðherra Kanada, og Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, ganga til fundarins um málefni norðurhjarans í Kanada í dag. Reuters

Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, gagnrýndi Kanadamenn fyrir að hafa ekki boðið fulltrúum Íslands, Svíþjóðar og Finnlands, auk fulltrúa frumbyggja, sem ættu lögmætra hagsmuna að gæta, á fund utanríkisráðherra fimm strandríkja norðurhjarans sem haldin var í Kanada í dag.

Clinton yfirgaf ráðstefnuna og tók ekki þátt í blaðamannafundi sem haldinn var í lok fundarins. Hún sagði að fulltrúar hópa frumbyggja hafi haft samband við hana og lýst vonbrigðum sínum yfir að vera ekki boðið til fundarins.

Clinton sagði einnig að Ísland, Svíþjóð og Finnland, sem eru norðurhjararíki, hafi svipaðar áhyggjur af því að hafa verið úthýst af fundinum. 

„Þeir sem hafa lögmætra hagsmuna að gæta á svæðinu ættu að taka þátt í mikilvægum alþjóðlegum viðræðum um málefni Norðurheimskautssvæðisins,“ sagði Hillary Clinton.

„Og ég vona að Norðurskautssvæðið verði alltaf til fyrirmyndar um hæfileika okkar til að starfa saman en ekki til þess að skapa sundrungu.“

Utanríkisráðherrar Bandaríkjanna, Kanada, Noregs, Rússlands og Danmerkur sátu fundinn.

Utanríkisráðherrar landanna fimm, sem tóku þátt í fundinum.
Utanríkisráðherrar landanna fimm, sem tóku þátt í fundinum. Reuters
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert