Jóhannes Páll varla gerður dýrlingur strax

Jóhannes Páll páfi II.
Jóhannes Páll páfi II. AP

Á morgun eru 5 ár liðin frá andláti Jóhannes Páls páfa II, vinsælasta páfa samtímans. Allt frá dauða hans hefur þrýstingur verið á kaþólsku kirkjuna að taka hann í dýrlingatölu og héngu m.a. borðar yfir Péturstorgi þegar jarðarför hans fór fram sem á stóð „Santo Subito" eða „dýrlingur strax!"

Aðeins tveimur mánuðum síðar lagði eftirmaður hans Benedikt XVI páfi til hliðar þá venju að bíða í minnst 5 ár áður en dýrlingaferlið hefst og spáðu margir því í kjölfarið að Jóhannes Páll yrði formlega tekinn í dýrlingatölu á þessu ári, annað hvort á dánardægri sínu á morgun eða  í október þegar 32 ár eru liðin síðan hann var kjörinn páfi.

Nú er hinsvegar komið babb í bátinn því svo virðist vera sem nunna sem á að hafa læknast af parkinsonveiki fyrir kraftaverk Jóhannes Páls hafi í raun aldrei þjáðst af parkinson heldur öðrum sjúkdómi. Staðfest kraftaverk er grundvallarskilyrði þess að vera tekinn í dýrlingatölu kaþólsku kirkjunnar.

Saga nunnunar, systur Maríu Simon-Pierre, þótti sérstaklega áhrifamikil vegna þess að Jóhannes Páll II þjáðist sjálfur afparkinsons og dró sjúkdómurinn hann raunar til dauða 84 ára að aldri. Systir María greindist með parkinsons 2001 og versnaði heilsa hennar hratt eftir dauða páfa. Ástvinir hennar tóku þá að biðja fyrir henni í nafni Jóhannes Páls páfa heitins og tveimur mánuðum síðan náði hún fullum bata án þess að læknar kynnu neina skýringu á því.

Nú er því hinsvegar haldið fram að systir María hafi alls ekki verið haldin parkinsons og því teljist lækning hennar varla kraftaverk í nafni Jóhannesar Páls. Vatikanið segir að rannsókn á kraftaverkinu standi enn yfir og sé í höndum tveggja sérfræðinga. Flokkist lækning Maríu ekki sem kraftaverk er þó ekki öll nótt úti því fjölmörg önnur kraftaverk eru eignuð Jóhannesi Páli II og a.m.k. 20 þeirra verða tekin til skoðunar.

Vanalega tekur áratugi eða jafnvel aldir að komast í dýrlingatölu kaþólsku kirkjunnar og eini kandídatinn sem áður hefur fengið flýtimeðferð var Móðir Teresa, en það var einmitt vegna aðkomu Jóhannesar Páls II.  Þann 17. október verður upptaka sex nýrra dýrlinga og er nú talið ólíklegt að Jóhannes Páll verði þeirra á meðal.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert