Ævilangt fangelsi fyrir að myrða lækni

Fóstureyðingar er mikið hitamál í Bandaríkjunum.
Fóstureyðingar er mikið hitamál í Bandaríkjunum. Reuters

Dómstóll í Bandaríkjunum hefur dæmt mann sem myrti lækni sem gerði fóstureyðingar í ævilangt fangelsi.

Scott Roeder, sem er 52 ára gamall, skaut dr George Tiller við kirkju í Wichita í Kansas í fyrra. Hann segist hafa gert það til að bjarga lífi ófæddra barna.  Roeder hafði ofsótt Tiller mánuðum saman áður en hann lét til skarar skríða.

Roeder sagði fyrir réttinum að hann sæi ekki eftir því að hafa myrt Tiller. Hann sagði að Wichita væri öruggari borg án George Tiller.

Lögmaður Tiller sagði að morðið á Tiller hefði verið hryðjuverk sem unnið hefði verið gegn umhyggjusömum fjölskyldumanni sem hefði haft sterka sannfæringu fyrir rétti kvenna. Hann hefði viljað að konur mættu sjálfar taka ákvarðanir og hann hefði fórnað lífi sínu fyrir þetta réttindamál.

Læknastofa Tillers var ein af þremur stofum í Bandaríkjunum sem gerði fóstureyðingar eftir að konur höfðu gengið með fóstur lengur en 21 viku, en það er löglegt í Kansas. Sprengja var sprengd við læknastofuna árið 1986 og árið 1993 var gerð tilraun til að myrða Tiller.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert