Aðeins toppurinn á ísjakanum

Reuters

Sá fjöldi kaþólskra presta á Ítalíu sem sl. áratug hefur sætt rannsókn vegna ásakana um barnaníð er aðeins toppurinn á ísjakanum. Þetta er mat Sergio Cavaliere, lögfræðings sem unnið hefur fórnarlömb kynferðismisnotkunar kaþólskra presta. Hann gagnrýnir kaþólsku kirkjuna harðlega fyrir að gera lítið sem ekkert til þess að tryggja fórnarlömbunum réttláta málsmeðferð.

„Sjálfur hef ég heimildir um a.m.k. 130 mál þar sem prestar hafa gerst sekir um barnaníð síðan 1999,“ segir Sergio Cavaliere, en upplýsingunum hefur hann safnað úr opinberum gögnum á borð við dagblöð, af netinu og úr dómskjölum. Bendir hann á að í 88 tilvikum sé barnaníðingurinn nefndur á nafn þar fórnarlambið þekki ofbeldismann sinn.

„Enn sem komið er hefur ekki einn einasti prestur verið framseldur í hendur lögreglunnar að frumkvæði biskupsdæmis,“ segir  Cavaliere, en hann er ekki einn um að benda á þessa staðreynd því Pietro Forno, saksóknari í Mílanó, hefur einnig bent á þessa staðreynd.

Pietro Forno hefur unnið tíu dómsmál þar sem kaþólskir prestar voru sóttir til saka fyrir barnaníð. „Í öll þau ár sem ég hef fengist við þennan málaflokk hefur aldrei borist nein kvörtun frá biskupi eða presti. Að mínu mati er það frekar furðulegt.“

Árið 2001 gekk Joseph Ratzinger, þáverandi kardínáli og núverandi páfi, frá tilskipun sem undirrituð var þáverandi páfa Jóhannesi Páli öðrum þess efnis að biskupum væri skylt að tilkynna Páfagarði ef þá grunaði prest um barnaníð jafnframt því sem þeir skyldu umsvifalaust færa viðkomandi prest úr starfi þannig að hann ætti engin samskipti við börn eða unglinga.

Sjálfur hefur Benedikt páfi verið sakaður um að hafa brugðist fórnarlömbum kynferðislegs ofbeldis með því að bregðast ekki við ábendingum um barnaníðinga meðal presta þegar hann var erkibiskup í Munchen og kardínáli og hafði yfirumsjón með siðgæðismálum kirkjunnar. Á Ítalíu eru starfandi a.m.k. 50 þúsund kaþólskir prestar.




mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert