Flugmenn hunsuðu fyrirmæli

Kona leggur blóm að innganginum við sendiráð Póllands í Kænugarði …
Kona leggur blóm að innganginum við sendiráð Póllands í Kænugarði í Úkraínu. Pólverjar víða um heim syrgja forseta landsins í dag. Reuters

Rússnesk stjórnvöld hafa fyrirskipað ítarlega rannsókn á flugslysinu við borgina Smolensk í morgun, þar sem forseti Póllands var á meðal þeirra sem létust.

Fulltrúi rússneska flughersins lét þau orð falla í dag að flugmaður farþegaflugvélarinnar hafi ítrekað hunsað fyrirskipanir frá rússneskum flugumferðarstjórum áður en flugvélin brotlenti.

„Þegar vélin var í 1,5 kílómetra fjarlægð uppgötvuðu flugumferðarstjórar að áhöfn hennar hafði hraðað lækkun hennar og farið niður fyrir ferilinn sem hún átti að fara," segir undirhershöfðinginn Alexander Alyoshin, en hann er næstæðsti yfirmaður rússneska flughersins.

„Yfirmaður fyrirskipaði áhöfninni að fljúga lárétt en lækka sig ekki. Þegar áhöfnin fór ekki eftir því fyrirskipaði hann þeim nokkrum sinnum að lenda á öðrum flugvelli," segir Alyoshin. ,,Engu að síður hélt áhöfnin áfram að lækka flugið. Því miður endaði þetta með harmleik," segir hann einnig.

Tvær aðrar flugvélar áttu að lenda á sama flugvelli í morgun. Önnur þeirra lenti farsællega en hin færði sig yfir á annan flugvöll til að forðast hina þykku þoku í Smolensk. Embættismenn hafa sagt að 97 manns hafi verið um borð í flugvélinni og auk Kaczynskis hafi þar verið fjölmargir æðstu yfirmenn pólska hersins.

Allir um borð í vélinni, sem var af gerðinni Tupolev Tu-154, fórust. Vitni á flugvellinum sem höfðu verið að bíða eftir vélinni hafa sagt blaðamanni AFP að þau hafi séð vélina fljúga nokkra hringi yfir flugvellinum í hinu lélega skyggni.

Hún gerði þrjár tilraunir til að lenda áður en hún rakst í trjátoppa við flugvöllinn og brotlenti svo á hliðinni í fjórðu tilraun. Búið er að finna báða svörtu kassana úr flugvélinni. ,,Bæði gagnageymsla og hljóðupptökur fundust á brotlendingarstaðnum. Greining þeirra mun varpa ljósi á ástæður þessa stórslyss," er haft eftir Sergei Shoigu, rússneskum ráðherra.

Rússnesk yfirvöld hafa líka fyrirskipað sakamálarannsókn til að skoða hvort að brot á öryggisreglum hafi leitt til slyssins. Hafa þau heitið því að sú rannsókn verði í nánu samstarfi við Pólverja.

Fréttastofan Interfax hefur eftir Alexei Gusev, yfirmanni Aviakor flugvélaverksmiðjunni í rússnesku borginni Samara, að meiriháttar endurbætur hafi farið fram á þotu pólska forsetans í desember á síðasta ári.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert