Þingforsetinn tekur við

Hluti úr flugvél forseta Póllands skammtfrá flugvellinum í Smolensk.
Hluti úr flugvél forseta Póllands skammtfrá flugvellinum í Smolensk. Reuters

Bronislaw Komorowski, forseti neðri deildar pólska þingsins, mun taka yfir skyldur embættis forseta Póllands en Lech Kaczynski, forseti, fórst í flugslysi í Rússlandi í morgun ásamt tugum pólskra embættismanna. Ríkisstjórn Póllands mun koma saman innan stundar.

Flugvél forsetans, sem var af gerðinni Tupolev-154, var að koma inn til lendingar í dimmri þoku við flugvöllinn í Smolensk í vesturhluta Rússlands þegar slysið varð.  Pólsk og rússnesk stjórnvöld hafa veitt misvísandi upplýsingar um fjölda látinna: Rússar að 132 hefðu verið í vélinni en Pólverjar að 89 hafi farist.

Meðal þeirra, sem létust auk Kaczynskis, voru Maria eiginkona hans,  Franciszek Gagor, yfirmaður pólska herráðsins, Slawomir Skrzypek, seðlabankastjóri og Andrzej Kremer, aðstoðarutanríkisráðherra. Pólsku embættismennirnir ætluðu að taka þátt í minningarathöfn um 22 þúsund pólska hermenn, sem sovéskar öryggissveitir drápu við Smolensk fyrir 70 árum.

Að sögn rússneskra stjórnvalda virðist flugvél forsetans hafa lent á trjám skammt frá flugbrautinni og brotnað í nokkra hluta. Veðurskilyrði voru slæm og hafði flugmönnum vélarinnar verið ráðlagt að snúa við.  

Forsetaflugvélin var að minnsta kosti 20 ára gömul. Pólskir embættismenn hafa lengi rætt um að skipta þurfi um embættisflugvélar pólskra ráðamanna en fjármunir hafa ekki verið fyrir hendi. Tu-154 flugvélar voru framleiddar í Rússlandi en hafa verið að hverfa úr notkun. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert