Hyggjast handtaka páfa

Benedikt páfi sextándi gæti átt von á handtökuskipun er hann …
Benedikt páfi sextándi gæti átt von á handtökuskipun er hann heimsækir Breta í haust. MAX ROSSI

Tveir breskir trúleysingjar, Richard Dawkins atferlisfræðingur og Christopher Hitchens rithöfundur, hafa beðið lögmenn þar í landi að undirbúa handtökubeiðni á Benedikt páfa er hann kemur í heimsókn til Bretlands í haust, vegna glæpa gegn mannkyninu. Sunday Times greinir frá þessu í dag.

Telja þeir páfa hafa gerst brotlegan við lög fyrir að hylmt yfir kynferðisbrot innan kaþólsku kirkjunnar og reynt að þagga þau niður. Hafa þeir til hliðsjónar heimsókn einræðisherrans Augusto Pinochet í Chile, til Bretlands árið 1998, er hann var þá handtekinn fyrir glæpi gegn mannkyninu.

Dawkins og Hitchens halda því fram að Benedikt páfi hafi í störfum sínum innan kaþólsku kirkjunnar, áður en hann kom í Vatikanið, ítrekað reynt að koma í veg fyrir að kynferðisbrot kæmust upp á yfirborðið eða reynt að gera lítið úr þeim. Dropinn sem virðist hafa fyllt mælinn hjá þeim voru fregnir þess efnis um helgina að árið 1985 hafi Benedikt undirritað bréf, þá sem Jósef Ratzinger biskup, þar sem stóð m.a. að frekar ætti að taka tillit til þess góða innan kirkjunnar í máli gegn bandarískum presti sem sakaður var um að hafa í sex tilvikum brotið á tveimur ungum drengjum.

Samkvæmt dagskrá páfans verður hann í Bretlandi frá 16. til 19. september nk. og heimsækir þá London, Glasgow og Coventry til að lýsa blessun yfir John Henry Newman, kardinála sem var uppi á 19. öldinni.

Þeir félagar líta svo á að páfi sé ekki friðhelgur í heimsókn sinni, þó að hún sé opinber, hann hafi ekki stöðu þjóðarleiðtoga samkvæmt viðmiðum Sameinuðu þjóðanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert