Sjá eftir fermingunni

Ný dönsk rannsókn leiðir í ljós að aðeins 65% þeirra ungmenna sem eru á aldrinum 18-27 ára myndi velja að láta ferma sig ef þau hefðu um það val í dag. Að mati þarlendra stjórnmálamanna ætti að hækka fermingaraldurinn upp í 18 ár. Sé aðeins horft til Kaupmannahafnar er hlutfallið 55%.

Stór hluti13-14 ára danskra unglingar velja ár hvert að láta ferma sig, en að mati Bente Dahl, talsmanns Radikale Venstre, er það allt of ungur aldur fyrir svo mikilvæga ákvörðun.

„Fermingin er að verða úrelt fyrirbæri. Hér áður fyrr voru börn farin að vinna fyrir sér 13-14 ára gömul, en þannig er það ekki lengur. Okkur finnst því eðlilegra að hækka fermingaraldurinn upp í 18 ára,“ segir hún.

Per Bisgaard, talsmaður Venstre sem situr í ríkisstjórn, segist vera opin fyrir hugmyndinni. „Það er margt sem mælir með því að aldurinn verði hækkaður og ég er sjálfur opinn fyrir þeim möguleika ef tillaga um slíkt verður lögð fram. Að mínu mati á fermingaraldurinn hins vegar að miðast við að ungmennin séu fermd meðan þau eru enn í grunnskóla, því annars væri öll fermingarfræðslan rokin út í veður og vind.“

Bent hefur verið á hvergi sé kveðið á um að í biblíunni hver fermingaraldurinn eigi að vera.
„Reyndar er ekkert minnst á fermingu í biblíunni. Þarna er um hreina kirkjulega athöfn að ræða sem sköpuð var af mönnum,“ segir Suzette Munksgaard, verkefnisstjóri hjá Center for Ungdomsstudier og Religionspædagogik.

Munksgaard hefur rannsakað afstöðu unglinga til fermingar. Hún bendir á að verði fermingaraldurinn hækkaður upp í 15-18 ára myndi það sjálfkrafa þýða að færri ungmenni veldu að láta ferma sig. „Hins vegar myndu þeir sem kysu að láta ferma sig vera sterkari í trúnni,“ segir hún.

Sten Wenzel-Petersen, prestur á Vesturbrú í Kaupmannahöfn, segir ljóst að sjái svo mörg ungmenni eftir því að láta ferma sig þá sé kirkjan með einhverjum hætti að bregðast. Hann bendir á að mörg ungmenni hafi engin tengsl við kirkjuna frá því þau fermast og þar til þau fara sitt fyrsta barn.

„Fram að þeim tíma er auðvitað ekkert skrýtið að þeim finnist þau ekki hafa nein not af fermingunni. Við þurfum að skerpa tengsl okkar við ungmennin í daglega lífinu þeirra ef við ætlum að snúa þessari þróun við.“



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert