N-Kóreumenn vara við stríði

Norður-Kóreskir hermenn við rætur Kumgang-fjalls í Norður-Kóreu.
Norður-Kóreskir hermenn við rætur Kumgang-fjalls í Norður-Kóreu. AP

Yfirvöld Norður-Kóreu lögðu í dag hald á nokkrar fasteignir í eigu Suður-Kóreu á ferðamannastaðnum Kumgang fjalli. Yfirtökunni fylgdu varnaðarorð N-Kóreu um að þjóðirnar tvær væru á barmi þess að fara í stríð eftir að s-kóresku herskipi var sökkt á umdeildu svæði við landamærin í mars.

Þá tilkynntu yfirvöld N-Kóreu að endanlega yrði tekið fyrir allar táknrænar ferðir yfir landamærin að Kumgang fjalli og sökuðu um leið forseta S-Kóreu, Lee Myung-Bak um að ögra norðrinu. „Samskiptin eru komin út í slíkar öfgar að ástandið er nú á barmi stríðs," segir í yfirlýsingu frá N-Kóreu. „Eðlilega getum við ekki lengur sýnt suðrinu göfuglyndi og þolinmæði við slíkar aðstæður."

Í síðustu viku ráku n-kóresk yfirvöld allt starfsfólk burt úr fimm byggingum í eigu S-Kóreu á ferðamannastaðnum Kumgang og innsigluðu byggingarnar til að mótmæla andstöðu S-Kóreu við að hefja að nýju ferðir yfir landamærin.

Yfirvöld S-Kóreu segja að nýjasta útspil norðursins brjóti gegn friðarsamkomulagi milli nágrannaríkjanna. „Þetta er ósanngjarnt athæfi sem grefur undan grunnstoðum sambandsins okkar á milli," segir í yfirlýsingu frá sameiningarráðuneytinu.

Í gær höfðu fjölmiðlar í S-Kóreu það eftir hátt settum embættismanni í hernum að n-kóreskir kafbátar væru grunaðir um að hafa ráðist á herskipið sem sökk í mars með þeim afleiðingum að 46 sjóliðar létust.  Yfirvöld þar í landi hafa ekki formlega ásakað N-Kóreumenn, sem neita allri ábyrgð á árásinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert