Björgunarpakkinn samþykktur

Efnahagsaðgerðir sem Grikkir hafa samþykkt að grípa til, svo þjóðinni verði veittur björgunarpakki Evrópusambandsins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eru án fordæmis að sögn Poul Thomsen, sendifulltrúa AGS í Grikklandi. Björgunarpakkinn hljóðar upp á 110 milljarða evra til þriggja ára.

Samþykkt hefur verið að veita Grikkjum fjárhagsaðstoðina og koma 80 milljarðar evra frá evruríkjunum en restin frá AGS.

Forsætisráðherra Grikklands, George Papandreou, sagði fyrr í dag að  samkomulagið við ESB og AGS komi í veg fyrir gjaldþrot ríkisins og að landið þyrfti að færa miklar fórnir vegna aðstoðarinnar.  Grikkir hafa fallist á að skera niður ríkisútgjöld um 30 milljarða evra á næstu þremur árum og er markmiðið að fjárlagahalli, sem var 13,6% af vergri landsframleiðslu á síðasta ári, verði kominn niður í 3% árið 2014. 

Til að mynda verður virðisaukaskattur hækkaður úr 21% í 23%. Orlofskaupaukar verða lækkaðir og allar aukagreiðslur hjá hinum opinbera lækkaðar. Launafrysting verður í þrjú ár hjá opinberum starfsmönnum og þeirra sem fá greiddan lífeyri. Skattur á eldsneyti, áfengi og tóbak verður hækkaður um 10% og reynt að ná böndum á ólöglega verktakastarfsemi.

George Papaconstantinou, fjármálaráðherra Grikklands, sagði ennfremur í dag, að opinberar skuldir Grikklands muni ná 140% af vergri landsframleiðslu árið 2013 en fari lækkandi eftir það.

Opinberar skuldir Grikklands munu ná 140% af vergri landsframleiðslu árið …
Opinberar skuldir Grikklands munu ná 140% af vergri landsframleiðslu árið 2013. YIORGOS KARAHALIS
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert