Hart barist á síðustu metrunum

Leiðtogar bresku stjórnmálaflokkanna ræddu við kjósendur í gær og reyndu að sannfæra þá um að þeirra leið væri sú besta fyrir Bretland og breskt efnahagslíf. Skammt er eftir að kosningabaráttunni, en Bretar munu ganga að kjörborðinu 6. maí nk.

Skv. skoðanakönnunum, sem voru gerðar um helgina, eru hefur Íhaldsflokkurinn náð ákveðnum skriðþunga. Í könnunum, sem gerðar voru fyrir blöðin í dag, hefur enginn einn flokkur ná öruggri forystu.

Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, sem berst nú fyrir pólitískri framtíð sinni, segir að ef Íhaldsflokkurinn fari með sigur af hólmi þá þýði það atvinnuleysi og kreppu.

David Cameron, leiðtogi íhaldsmanna, hæddist að Brown og sagði að hann væri „samanskroppinn“. Hann sagði jafnframt að Íhaldsflokkurinn ætlaði sér stóra hluti hvað varðar atvinnusköpun í landinu.

Nick Clegg, leiðtogi Frjálslyndra demókrata, sakar íhaldsmenn um að þjóna sérhagsmunahópum. Clegg er nú í lykilstöðu og stendur hann jafnfætis þeim Brown og Cameron, en hingað til hefur Frjálslyndi demókrataflokkurinn ávallt verið þriðji og minnsti flokkurinn á eftir Verkamannaflokknum og Íhaldsflokknum.

Þrátt fyrir að íhaldsmenn hafi sótt í sig veðrið hefur engin ný könnum bent til þess að miðhægri stjórn muni ná hreinum meirihluta. Svo getur hins vegar farið að Verkamannaflokkurinn muni bíða afhroð og hafna í þriðja sæti í ár, en árið 1997 vann flokkurinn stórsigur undir stjórn Tony Blair.

Flokkarnir hafa ekki útskýrt nákvæmlega hvernig, og hversu mikið, þeir hyggist skera niður útgjöld. Niðurskurður blasir hins vegar við, sama hvaða flokkur sigrar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert