Samkynhneigðum pörum í Danmörku leyft að frumættleiða

mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Danska þingið samþykkti fyrr í dag að heimila samkynhneigðum, í skráðri sambúð, að frumættleiða. Það þýðir að samkynhneigð pör hafa nú sama rétt og gagnkynhneigð. Frá þessu er greint í dönskum fjölmiðlum.

Þar kemur fram að það hafi komið ýmsum á óvart á lögin voru samþykkt, því fimm þingmenn hægriflokksins Venstre ákváðu að greiða atkvæði gegn vilja ríkisstjórnarinnar, en Venstre myndar ríkisstjórn með Íhaldsflokknum og nýtur stuðnings Danska þjóðarflokksins.

Það var Simon Emil Ammitzbøll, þingmaður Liberal Alliances sem er í stjórnarandstöðu á danska þinginu, sem fyrst talaði fyrir lagabreytingunni.

„Ég er ótrúlega glaður með það að við skulum í dag hafa tekið enn eitt skrefið í þá átt að tryggja jafnan rétt samkynhneigðra og gagnkynhneigðra,“ segir Simon Emil Ammitzbøll.

„Samkynhneigð pör geta orðið jafngóðir foreldrar og gagnkynhneigðir. Það að vera gott foreldri snýst hvorki um kynhneigð, trú eða fjárhag, heldur um kærleika og umhyggju gagnvart börnum sínum,“ segir hann.

Bæði Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra, og Lars Barfoed, dómsmálaráðherra, höfðu áður lýst því yfir að það væri ekki stefna ríkisstjórnarinnar að leyfa samkynhneigðum að frumættleiða. En fyrir rúmu ári neyddi meirihluti þingsins ríkisstjórnina til þess að leggja fram lagafrumvarpið sem nú hefur verið samþykkt.





mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert