Reynt að kveikja í húsi sænsks teiknara

Lars Vilks.
Lars Vilks. Reuters

Reynt var að kveikja í húsi sænska skopteiknarans Lars Vilks í nótt. Skemmdir urðu litlar á húsinu en veggur sviðnaði og rúður í gluggum brotnuðu. Lögregla fann brotna glerflösku með bensínleifum inni í húsinu, sem var mannlaust þegar þetta gerðist.

Nýlega var ráðist á Vilks þar sem hann var að flytja fyrirlestur í Uppsalaháskóla í Svíþjóð. Tveir menn voru handteknir í kjölfarið. Þá komst nýlega upp um áform hóps íslamista sem ætlaði að reyna að myrða teiknarann og voru átta manns handteknir á Írlandi. 

Lars bakaði sér reiði múslima þegar sænska blaðið Nerikes Allehanda birti eftir hann mynd sem sýndi Múhameð spámann í hundslíki. Í kjölfarið mótmæltu múslimar búsettir í Örebro, vestur af Stokkhólmi, þar sem blaðið er gefið út, og stjórnvöld í Egyptalandi, Íran og Pakistan mótmæltu teikningunni formlega.

Samtök tengd Al-Qaeda hryðjuverkasamtökunum lögðu síðan 100 þúsund dali til höfuðs Vilks og hétu því að greiða 50 þúsund dali aukalega ef hann yrði skorinn á háls og 50 þúsund dali að auki ef tækist að myrða Ulf Johansson, aðalritstjóra Nerikes Allehanda. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert