Fréttaskýring: Reiði í landi brosanna

Reykjarmökkur lá yfir Bangkok eftir að rauðliðar báru eld að …
Reykjarmökkur lá yfir Bangkok eftir að rauðliðar báru eld að fjölda bygginga þar í gær, miðvikudag. Reuters

Mótmæli rauðliða í Bangkok eru ein birtingarmynd vaxandi vitunar fátæks fólk til sveita um þá miklu misskiptingu sem er í Taílandi, að mati Jóns Orms Halldórssonar stjórnmálafræðings.

Sveitin miklu fátækari

– Er tekjuskiptingin í Taílandi raunverulegur hvati fyrir mótmælendur til að fylkja liði?

„Já, hún er það. Ef þú lítur á Taíland er það annars vegar höfuðborgin Bangkok og nágrenni þar sem um 10 milljónir manna búa og svo fátækar sveitir. Það er gífurlegur munur á því samfélagi og lífsskilyrðum í norður- og austurhluta landsins. Það er eins og að koma í annan heim að fara í þá áttina. Þar eru tekjurnar miklu, miklu lægri. Það sem hefur haldið þessu mikið saman er hollusta við konungdæmið. Konungurinn [Bhumibol Adulyadej] hefur ferðast mikið um landsbyggðina þar sem hann er tilbeðinn sem guð.

Þetta fólk í norður- og austurhluta Taílands hefur aldrei verið sérlega virkt í stjórnmálum. Það hefur þó gerst nokkrum sinnum að stjórnmálamenn hafa getað keypt sér fylgi með lýðskrumi, enginn þó með sama árangri og Thaksin [Shinawatra, fyrrverandi forsætisráðherra] sem beinlínis gerði norður- og austurhlutann að vígi sínu. Hann hefur gífurlegt fylgi þar og afrekaði það meðal annars með því að gefa hverju einasta þorpi styrk sem þau gátu notuð, auk þess að bjóða beinar greiðslur, niðurgreiðslur og annað þess háttar. Hann kom með mikið fé inn í hagkerfið.

Taíland er óskaplega misskipt samfélag og það er eins og að það sé loksins að kvikna einhver vitund um hana. Taílendingar í minni stétt, stétt stjórnmálafræðinga, hafa verið mjög pirraðir á almenningi og að hann skuli ekki sjá þá kúgun sem hefur átt sér stað, að láta elítuna í Bangkok mergsjúga sig án þess að gera nokkuð. Ég veit að þeir eru mjög spenntir fyrir því sem er að gerast núna. Það er eins og þjóðin sé allt í einu að vakna upp.“

Áttar sig á misskiptingunni

- Hafði þetta viðvarandi áhrif?

„Já. Það var eins og fólkið fengi "blod på tanden". Það að fólk skyldi átta sig á þessari miklu misskiptingu hefur komið hlutunum af stað, að því er virðist vera. Það kom mér mjög á óvart þegar mótmælin fóru af stað núna því þetta var mjög ólíkt því Taílandi sem ég þekkti.

Ég hef ekki komið þangað í nokkur ár en það hefur gerst eitthvað mikið á síðustu árum í pólitískri vitund í Norður- og Austur-Taílandi. Þetta er spurning um efnahagsvitund.“

Ekki aftur snúið?

- Verður þá ekki aftur snúið? Hefur Thaksin leitt til viðvarandi breytinga?

„Ég held ekki. Ég held að það sé orðin - og það hefur komið mörgum á óvart - viðvarandi breyting á Taílandi sem stjórnmálafyrirbæri. Svo er annað sem er að gerast. Konungurinn er orðinn gamall og við tekur mjög umdeildur sonur hans [Vajiralongkorn].

Það er ekkert fjallað um það í taílensku pressunni að sonurinn sé umdeildur en ef þú ræðir við Taílendinga veistu að það er litið niður á hann fyrir glaumgosalíferni. Sonurinn er augljóslega ekki siðferðisleg fyrirmynd. Það gerir það að verkum að hann hefur ekki þetta siðferðislega áhrifavald sem konungurinn hafði.“

- Og þetta sætir tíðindum?

„Já. Það er stórt skref fyrir venjulegan Taílending að rísa upp gegn stjórnmálastétt sem er helguð af þessu helga konungdæmi. Og það virðist sem að það sé að bresta.“

Konungurinn enn helgur maður

- Á taílenskum veitingastöðum er algengt að sjá myndir af bændum að krjúpa fyrir Rama V konungi eða núverandi konungi. Er þetta að breytast?

„Konungurinn er enn þá helgur maður. Það sem ég held að geti orðið erfitt fyrir konungdæmið er þegar hann fer. Tilfinningin er sú að þetta sé umbreytingaskeið. Konungurinn er orðinn gamall maður og hann er að fara.

Það má sjá í taílensku sjónvarpi að þegar konungurinn tekur einstaka sinnum á móti forsætisráðerranum, yfirmanni hersins eða einverjum valdamanni að fólk skríður á hnjánum til hans.

Og þeir gæta þess að vera aldrei með höfuðið hærra en konungurinn. Í upphafi kvikmyndasýninga - síðast þegar ég vissi - var alltaf mynd af konunginum og þjóðsöngurinn leikinn áður en myndin byrjaði. Þannig að þetta er stór hluti af taílensku þjóðlífi. Það eru ekki bara myndir af konunginum á veitingastöðum. Þú sérð þær á taílenskum einkaheimilum.“

Hugsjónir í aukahlutverki

- Hvaða hlutverki gegna stjórnmálahugsjónir á landsbyggðinni?

„Þær eru í algjöru aukahlutverki. Stéttastjórnmál sem sambland af Marx eða einhverjum slíkum kenningum eiga alls ekki upp á pallborðið, enda er maðurinn [Thaksin] sem alþýðan er að falla fyrir ríkasti maður Taílands, eða var það alla vega.

Þannig að þetta minnir meira á pópúlisma úr Suður-Ameríku heldur en eitthvað strúktúrað stjórnmálakerfi. Hreyfingin myndi líklega skiptast í marga hluta af Thaksin væri ekki til staðar sem eins konar sameiningartákn.“

Thaksin óhemju umdeildur

- Eru einhverjar líkur á því að Thaksin snúi aftur úr útlegð?

„Thaksin er óhemju umdeildur. Hann klýfur þjóðina algerlega í herðar niður. Fyrir elítuna í Bangkok er hann ekki aðeins svikari heldur þjófur og maður sem ætti að vera í fangelsi. Þannig að hann mun aldrei sameina þjóðina en það eru ákveðnar líkur á að hann snúi aftur til baka eða að það verði einhver í hans stað sem yrði undir áhrifum frá honum.

Þá er ekki útilokað að það myndist einhver samstaða á milli hluta mótmælenda og hluta úr elítunni í Bangkok sem ræður yfir viðskiptalífi landsins auk þess að hafa ítök í hernum. Hann hefur alltaf verið mjög samstæð heild sem hefur staðið fyrir utan valdakerfið en verið tengdur inn í elítuna í Bangkok.

Herinn er að að skiptast líka. Það er sjaldgæft að herinn klofni með augljósum hætti en það hefur hann gert tvívegis áður á síðustu áratugum með verulegum afleiðingum, yfirleitt stendur hann hins vegar saman gagnvart pólitískum stjórnvöldum og almenningi,“ segir Jón Ormur Halldórsson, dósent við Háskólann í Reykjavík.

Jón Ormur Halldórsson stjórnmálafræðingur.
Jón Ormur Halldórsson stjórnmálafræðingur.
Taílandskonungur er mikill áhugamaður um ljósmyndun.
Taílandskonungur er mikill áhugamaður um ljósmyndun.
Rauðliði með andlitsgrímu af Thaksin Shinawatra, útlægum milljarðamæringi sem var …
Rauðliði með andlitsgrímu af Thaksin Shinawatra, útlægum milljarðamæringi sem var áður forsætisráðherra landsins. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert