Ísraelsher staðfestir mannfall

Farþegar um borð í skipinu á blaðamannafundi skömmu áður en …
Farþegar um borð í skipinu á blaðamannafundi skömmu áður en Ísraelsmenn réðust á skipið. Reuters

Ísraelsher staðfesti í morgun að fleiri en 10 hefðu látist þegar sérsveitarmenn ísraelska sjóhersins fóru um borð í skip í skipalest tyrkneskra hjálparsamtaka, sem var á leið með hjálpargögn til Gasasvæðisins. Evrópusambandið hefur krafist rannsóknar á málinu.

Tyrknesk hjálparsamtök, sem tengjast siglingunni, sögðu í dag að 15 hefðu látið lífið, flestir þeirra tyrkneskir ríkisborgarar. Breska ríkisútvarpið BBC segir, að þetta hafi gerst á alþjóðlegu hafsvæði um 40 sjómílur frá landi. Ísraelsmenn munu draga skipin til hafnarborgarinnar Ashdod og þaðan verða farþegarnir sendir úr landi.  

Talsmaður hersins sagði við AFP, að miðað við fyrstu upplýsingar hafi yfir 10 farþegar um borð í forustuskipinu látið lífið. Talsmaðurinn upplýsti ekki hve margir hefðu særst en fréttir hafa borist af því að allt að 60 séu sárir. Talsmaðurinn sagði að bæði sérsveitarmenn og farþegar hefðu beitt skotvopnum.

Óstaðfestar fréttir, sem birtust í sjónvarpsstöð Hamassamstakanna á Gasa, sögðu að 20 hefðu látið lífið og um helmingur þeirra hefði verið tyrkneskir ríkisborgarar.

Fréttir herma einnig, að einn þeirra, sem særðist í átökunum hafi verið Raed Salah, kunnur arabískur Ísraeli og baráttumaður fyrir mannréttindum.  

Ísraelsk sjónvarpsstöð sagði, að ísraelskir sérsveitarmenn hefðu byrjað að skjóta eftir að farþegar í skipinu réðust að þeim með öxum og hnífum. Útvarp Ísraelshers sagði að 10-14 manns hefðu látið lífið í átökum sem brutust út eftir að farþegarnir reyndu að afvopna sérsveitarmenn, sem létu sig síga úr þyrlum niður í skipið.

Tyrkneska utanríkisráðuneytið sagði, að árásin á skipalestina, sem í voru meðal annars tyrknesk skip, muni valda óbætanlegu tjóni á samskiptum ríkjanna tveggja. Eru aðgerðir Ísraelsmanna fordæmdar og þær sagðar brot á alþjóðalögum.  

Hamassamtökin, sem ráða Gasasvæðinu, hvöttu Araba og múslima til að gera uppreisn framan við ísraelsk sendiráð víðsvegar um heiminn. Mahmud Abbas, forseti Palestínumanna, sagði að Ísraelsmenn hefðu framið fjöldamorð í skipinu og Amr Mussa, leiðtogi Arababandalagsins, sagði að árásin væri glæpur gegn mannúðarstörfum. 

Skip Hamasmanna bíða eftir skipalestinni.
Skip Hamasmanna bíða eftir skipalestinni. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert