Írar senda nýtt skip til Gaza

Reuters

Írsk stjórnvöld leggja nú hart að stjórnvöldum í Ísrael um að þau stöðvi ekki för báts með hjálpargögnum frá Írlandi. Báturinn heitir í höfuðið á Rachel Corrie, en hún lést friðargæslustörf í Palestínu þegar ísraelsk jarðýta ók yfir hana þar sem hún mótmælti niðurrifi húsa á Gaza svæðinu.

Um borð í bátnum eru 15 manns, þeirra á meðal friðarnóbelsverðlaunahafi og fyrrverandi hátt settur embættismaður hjá Sameinuðu þjóðunum. Skipið er nú statt á Miðjarðarhafi á leið sinni til Gaza og talið að það geti náð áfangastað á mánudag.

Í ljósi atburðanna fyrr í vikunni, þegar ísraelski herinn réðist um borð í skipalest áleiðis til Gaza með hjálparbúnað á alþjóðlegu hafsvæði með þeim afleiðingum að a.m.k. níu manns létu lífið, vilja írsk stjórnvöld nú fá tryggingu frá ísraelskum stjórnvöldum þess efnum að þau muni heimila Rachel Corrie að sigla óáreitt.

„Ég ítreka ákall mitt til ísraelskra stjórnvalda um að þau leyfi írskra skipinu að fara óáreitt til Gaza og afhenda þar hjálpargögnin,“ segir  Micheal Martin, utanríkisráðherra Írlands.

„Það skiptir miklu máli að ekki komi til frekari blóðsúthellinga í tengslum við hjálparstarfið sem mannréttindasamtök hafa reynt að sinna í tengslum við skipaflotann.“

Martin fagnaði því að þegar væri búið að sleppa sex Írum sem í haldi voru og sagðist bíða eftir að þeir snéru heilu á höldnu heim til Írlands.

Brian Cowen, forsætisráðherra Írlands, lét fyrr í dag hafa eftir sér að leyfa yrði Rachel Corrie að komast á leiðarenda og sagði það geta haft alvarlegar afleiðingar ef írskir ríkisborgarar hlytu meiðsl af för sinni. Tók hann fram að stjórnvöld hefði verið í nánum og góðum tengslum við skipverja um borð í Rachel Corrie, sem enn er stödd á alþjóðlegu hafsvæði, sem og ísraelsk stjórnvöld.

„Um borð í bátnum er steypa, en ísraelsk stjórnvöld hafa ekki viljað skilgreina steypu sem hjálpargögn. Við verðum því að bíða og sjá til hvernig þetta verði útkljáð,“ segir Cowen.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert