Lýsir svívirðingum ísraelskra lögreglumanna

Paveen Yaqub, frá Manchester, sem var um borð í Mavi Marmara sem ísraelskir hermenn réðust um borð í á mánudag, segist hafa orðið fyrir ofbeldi og svívirðingum ísraelskra lögreglumanna eftir að hún var handtekin.

 „Þeir spörkuðu í fæturna á mér [...] og hæddust að mér á hebresku,“ segir Yaqub í frétt sem birtist á vef Telegraph. „Þeir reyndu líka að taka myndir af mér til minningar og hlógu upp í opið geðið á mér. Þá leituðu þeir einnig á mér, en ég vil síður ræða það. Þeir fengu ánægju út úr því að niðurlægja okkur.“

Hún sagði reynsluna hafa verið mjög erfiða en hún hafi ekki sofið í marga daga. „Við höfum undanfarna daga verið beitt ofbeldi af ísraelskum stjórnvöldum.“

Sarah Colborne, sem einnig var um borð í Mavi Marmara, lýsir því í sömu frétt hvernig ísraelskir hermenn skutu mann í höfuðið sem hafði komið slösuðum til bjargar. Hún þvertekur fyrir að áhafnarmeðlimir hafi verið vopnaðir og segir enn ekki vitað hversu margir hafi verið drepnir, enda nokkurra ennþá saknað.

Skipið Mavi Marmara, sem ísraelskir sérsveitarmenn réðust á.
Skipið Mavi Marmara, sem ísraelskir sérsveitarmenn réðust á. AMIR COHEN
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert