1001 nótt ekki of dónaleg

Frá Egyptalandi.
Frá Egyptalandi. TAREK MOSTAFA

Þúsund og ein nótt er ekki ósiðleg bók að mati saksóknara í Egyptalandi, sem vísaði í dag frá kröfu múslíma um að ævintýrið aldagamla yrði bannað í landinu. Saksóknarinn Abdel Megid Mahmud sagði að sögurnar í Þúsund og einni nótt hefðu verið gefnar út og lesnar öldum saman án þess að það hefði skapað vandamál, og þær hafi verið óteljandi fjölda listamanna innblástur.

Það var hópur múslímskra lögfræðinga sem sótti málið eftir að ríkisrekin bókaútgáfa gaf út nýja útgáfu af Þúsund og einni nótt. Þeir byggðu kröfuna um bókabannið á því að sögurnar væru dónalegar og lögðu fram lista af atriðum sem þeir töldu að væru hvatning til lesandans um að syndga. Saksóknari vísaði í mál frá árinu 1985 þar sem sambærilegri kröfu var vísa frá dómi og sagði að ekkert hefði breyst síðan þá.

Þúsund og ein nótt var fyrst gefin út á miðöldum. Í bókinni er að finna fjölmörg fræg ævintýri, m.a. söguna af Ali Baba og ræningjunum 40, sem prinsessan Sheherazade segir til að bjarga lífi sínu, en konungur stundar þann sið að afmeyja jómfrúr landsins og taka þær því næst af lífi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert