Olíubætur berist fljótt

Frá slysstaðnum á laugardag. Eldur logaði í hluta olíubrákarinnar.
Frá slysstaðnum á laugardag. Eldur logaði í hluta olíubrákarinnar. Reuters

Kenneth Feinberg, sem fer fyrir bótagreiðslum breska olíurisans BP vegna olíulekans í Mexíkóflóa, boðar skjóta meðferð skaðabótamála vegna þess tjóns sem lekinn hefur valdið. Feinberg hefur úr 20 milljörðum dala, um 2.534 milljörðum króna, að spila.

Feinberg hefur eftir Barack Obama Bandaríkjaforseta að hann vilji að bæturnar verði greiddar út sem fyrst.

Þá boðar Feinberg að umsækjendur, sjómenn og aðrir, verði látnir njóta vafans þegar umsóknir um bætur eru teknar til greina.

Atburðarásin fyrir slysið 20. apríl sl., þegar olíuborpallurinn Deepwater Horizon varð að eldhafi og sökk með þeim afleiðingum að 11 biðu bana, er smátt og smátt tekin að skýrast.

Tók eftir bilun

Þannig hefur Tyrone Benton, fyrrverandi starfsmaður á pallinum, staðfest í samtali við Panorama, fréttaskýringarþátt BBC, að hann hefði orðið olíuleka var í öryggisbúnaði pallsins.

Í framhaldinu hafi hins vegar ekki verið tekið á vandamálinu heldur einfaldlega slökkt á umræddum hluta búnaðarins og annar tekinn í notkun í staðinn.

Benton kveðst hins vegar ekki viss um hvort bilaði hlutinn hafi verið settur af stað aftur fyrir slysið.

Styttu sér leið hjá öryggisreglum

Haft er eftir Henry Waxman, þingmanni demókrata í fulltrúadeild Bandaríkjaþings, að sterkar vísbendingar séu um að starfsmenn BP hafi stytt sér leið hjá öryggisreglum í ágóðaskyni.

Takist að færa rök fyrir því í réttarsal gætu skaðabótakröfurnar á hendur BP orðið stjarnfræðilegar. Slysið er enda komið í sögubækurnar. 

Reynist sú áætlun bandarísku jarðfræðistofnunarinnar (USGS) rétt að á milli 35.000 til 60.000 tunnur af olíu hafi lekið í flóann dag hvern og þar af leiðandi allt að 3,6 milljónir tunna er á ferð stærsta olíuslys sögunnar á hafi úti.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert