Græða 393 milljarða á mansali

Þrælahald í Evrópu tilheyrir ekki fortíðinni
Þrælahald í Evrópu tilheyrir ekki fortíðinni mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Glæpahópar hafa 2,5 milljarða evra, rúmlega 393 milljarða króna, upp úr krafsinu af mansali í Evrópu á ári hverju. Flest þeirra 140 þúsund fórnarlamba mansals eru þvinguð í vændi og aðra kynlífsþjónustu, samkvæmt nýrri skýrslu Sameinuðu þjóðanna.

„Mansal er ein ábatasamasta ólöglega atvinnugreinin í Evrópu," segir í nýrri skýrslu UNODC, skrifstofu fíkniefna og skipulagðra glæpa hjá Sameinuðu þjóðunum.

Talið er að á hverjum tíma séu 140 þúsund fórnarlömb mansals föst í hring ofbeldis, misnotkunar og smánar í Evrópu. Engin merki eru um að þessi hópur fari minnkandi, segir ennfremur í skýrslunni. 84% fórnarlamba mansals eru seld í kynlífsánauð. Um helmingur fórnarlambanna koma frá löndum á Balkanskaganum og Rússlandi. Í einstaka landi Evrópu eru fórnarlömbin flest frá Austur-Asíu.

„Evrópubúar trúa því að þrælahald hafi verið afnumið fyrir öldum síðan. En lítið í kringum ykkur: þrælar eru á meðal okkar," segir yfirmaður UNODC, Antonio Maria Costa.

Hann segir nauðsynlegt að gripið verði til aðgerða til þess að koma í veg fyrir aukna eftirspurn eftir þrælum.

Afar fátítt er að ákært sé fyrir mansal í Evrópu að sögn Costa.

Á Íslandi hafa tvö slík mál komið til kasta dómstóla, en fimm Litháar voru í Hæstarétti nýverið dæmdir í fjögurra og fimm ára fangelsi fyrir mansal.

Kona bíður nú dóms vegna mansals og umfangsmikillar vændisstarfssemi á Íslandi en hún var sýknuð af ákæru um mansal í desember í fyrra.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert