Dæmdur fyrir að svíkja fé úr sjóðum ESB

Búlgarskur kaupsýslumaður hefur verið dæmdur í fangelsi fyrir að svíkja …
Búlgarskur kaupsýslumaður hefur verið dæmdur í fangelsi fyrir að svíkja fé út úr sjóðum ESB Reuters

Búlgarskur kaupsýslumaður var í dag dæmdur í tólf ára fangelsi í heimalandinu fyrir að hafa svikið milljónir evra út úr landbúnaðarstyrktarkerfi Evrópusambandsins. Þykir málið vera prófmál á það hvernig dómskerfi Búlgaríu stendur sig en Evrópusambandið hefur gagnrýnt spillingu í Búlgaríu harðlega.

Mario Nikolov var dæmdur í héraðsdómi í Sofiu, höfuðborg Búlgaríu, fyrir að hafa keypt notaðan búnað til að nota í kjötframleiðslu en hafa sent skjöl á ESB um að búnaðurinn væri nýr. Fór saksóknari fram á að hann yrði dæmdur í 17 ára fangelsi. Með svikunum náði Nikolov að svíkja 7,5 milljónir evra, 1,2 milljarða króna, út úr styrkjakerfi ESB.

Eiginkona Nikolov var dæmd í fimm ára fangelsi í málinu en saksóknari hafði farið fram á 14 ára fangelsisdóm yfir henni.

Sjö til viðbótar voru ákærðir í málinu. Af þeim voru fjórir dæmdir í tíu ára fangelsi, einn fékk skilorðsbundin þriggja ára dóm og tveir voru sýknaðir.

Fjársvikin, sem komust upp fljótlega eftir að Búlgaría gekk í ESB árið 2007, urðu til þess að ESB frysti greiðslu upp á 100 milljónir evra í styrki til búlgarsks landbúnaðar.

Í mars var Mario Nikolov dæmdur í tíu ára fangelsi fyrir peningaþvætti á fjármunum ESB sem hann stal. Hann hefur áfrýjað þeim dómi svo hann hefur ekki hafið afplánun en er í gæsluvarðhaldi.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert