Unglingar börðu mann til bana

Sakborningarnir hlýða á ákæruna í réttarsalnum í München í dag.
Sakborningarnir hlýða á ákæruna í réttarsalnum í München í dag. Reuters

„Réttarhöld hófust í dag yfir tveimur þýskum unglingum, sem ákærðir eru fyrir að berja fimmtugan karlmann til bana vegna þess að hann reyndi að koma hópi barna, sem unglingarnir veittust að, til bjargar.

Piltarnir tveir heita Sebastian Leibinger, 18 ára, og Markus Schiller, 19 ára. Þeir eru ákærðir fyrir að hafa orðið kaupsýslumanninum Dominik Brunner að bana í lest í borginni München í september.

Þeir Leibinger og Schiller höfðu veist að fjórum drengjum á aldrinum 13-15 ára og reyndu að neyða þá til að gefa sér peninga. Þeir slógu einn drenginn og þá ákvað Brunner að ganga á milli. Hann bauðst til að fylgja yngri drengjunum út úr lestinni á næstu stöð og hringdi í lögreglu úr farsíma sínum.

Saksóknarar segja, að Leibinger og Schiller hafi elt hópinn út úr lestinni og réðust síðan á Brunner. Að sögn lögreglu veittu þeir honum yfir 40 högg og spörk og skildu Brunner síðan eftir á brautarpallinum þar sem honum blæddi út.

Mál þetta vakti mikið uppnám og sorg í Þýskalandi. Horst Köhler, þáverandi forseti Þýskalands, sæmdi Brunner orðu eftir dauða hans fyrir hugrekki. 

„Ég missti þig vegna þess að þú vildir ekki líta undan," skrifaði unnusta Brunners í minningargrein.

Schiller viðurkenndi við upphaf réttarhaldanna í morgun, að hafa ráðist á Brunner en sagði að eldri maðurinn hefði átt upptökin. 

„Ég veit að það sem ég gerði er óafsakanlegt og viðbrögð mín voru alröng," sagði hann. „Ég get ekki lýst því hvað ég harma dauða hr. Brunners."

Hann sagði hins vegar, að Brunner hefði ögrað honum og að hann hefði misst stjórn á sér.

Verjendur piltanna halda því fram, að Brunner hafi slegið fyrst til þeirra. Fallist dómstóllinn á það myndi það þýða að piltarnir yrðu fundnir sekir um manndráp en ekki morð, verði þeir sakfelldir.

Schiller á yfir höfði sér ævilangt fangelsi, verði hann fundinn sekur um morð. Leibinger á yfir höfði sér allt að 10 ára fangelsi en hann var 17 ára þegar þetta gerðist. 

Sebastian Leibinger í réttarsalnum í dag.
Sebastian Leibinger í réttarsalnum í dag. Reuters
Markus Schiller ásamt lögmanni sínum.
Markus Schiller ásamt lögmanni sínum. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert