Bandaríkin fordæma birtingu leyniskjala

Bandaríkjastjórn fordæmdi í kvöld, að birt hefðu verið leyniskjöl, sem virðast sýna að fulltrúar úr njósnadeild pakistanska hersins hafi átt fundi með uppreisnarmönnum talibana í Afganistan og veiti þeim ráðleggingar. Wikileaks lét blöðum í Bandaríkjunum, Bretlandi og Þýskalandi skjölin í té. 

Í yfirlýsingu frá James Jones, þjóðaröryggisráðgjafa Bandaríkjanna, segir að Bandaríkin fordæmi að einstaklingar og stofnanir hafi birt leyniskjöl, sem kunni að setja líf Bandaríkjamanna og bandamanna þeirra í hættu og ógni þjóðaröryggi Bandaríkjanna.    

Segir Jones, að Wikileaks hafi ekki reynt að hafa samband við Bandaríkjastjórn vegna skjalanna og stjórnvöld hafi frétt það hjá fréttaþjónustum að birta ætti skjölin.

Bandaríska blaðið New York Times segir að skjölin sýni að Bandaríkjamenn hafi lengi grunað að stjórnvöld í Pakistan leyfi fulltrúum leyniþjónustu landsins að eiga fundi með talibönum. Þessir leyniþjónustumenn skipuleggi starf herskárra hópa, sem berjast við bandaríska hermenn í Afganistan og leggi jafnvel á ráðin um að myrða afganska leiðtoga. 

New York Times sagði að Wikileaks hefði látið blaðið fá þessi leyniskjöl fyrir nokkrum viku og einnig hefðu breska blaðið Guardian og þýska tímaritið  Der Spiegel fengið þau í hendur með því skilyrði, að fréttir úr þeim yrðu ekki birtar fyrr en í dag. Um er að ræða 92 þúsund skjöl, sem bandaríska varnarmálaráðuneytið og herforingjar hafa notað við að gera hernaðaráætlanir. Ná skjölin yfir tímabilið frá 2002 til 2009.

New York Times segir, að skjölin séu einskonar rauntímasaga stríðsins í Afganistan frá sjónarhóli hermanna og herforingja, sem berjist á vígvellinum og stýri aðgerðum frá degi til dags.  

Blöðin þrjú sammæltust um að birta greinar byggðar á skjölunum í dag en höfðu ekki samstarf um innihaldið.

Wikileaks birti skjölin á netinu í kvöld.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert