Pútín söng ættjarðarlög með njósnurum

Vladímír Pútín ræðir við blaðamenn í Úkraínu.
Vladímír Pútín ræðir við blaðamenn í Úkraínu. Reuters

Vladímír Pútín, forsætisráðherra Rússlands, upplýsti í morgun að hann hefði hitt rússnesku njósnarana, sem vísað var úr landi í Bandaríkjunum nýlega, og sungið með þeim gömul sovésk ættjarðarlög.

Pútín, sem sjálfur starfaði fyrir sovésku leyniþjónustuna KGB, sagðist meðal annars hafa hitt Önnu Chapman, sem vakið hefur mesta athygli af rússnesku njósnurunum. Spáði Pútín því að fólkið ætti bjarta og áhugaverða framtíð fyrir höndum.

„Ég hitti þau. Við töluðum um lífið. Við sungum. Þetta var ekki karaoke heldur lifandi tónlist," sagði Pútín við blaðamenn sem fylgdu honum í heimsókn til Úkraínu.  

Pútín sagði að þau hefðu meðal annars sungið lagið Þar sem föðurlandið hefst, sem varð afar vinsælt eftir að það var sungið í sovésku myndinni Sverðið og skjöldurinn frá 1968 en myndin fjallar um sovéskan njósnara í Þýskalandi í síðari heimsstyrjöld. 

„Ég er ekki að grínast, mér er alvara. Og við sungum fleiri svipuð lög," sagði Pútín.  

Forsætisráðherrann gaf til kynna, að hann vissi hverjir bæru ábyrgð á því, að flett var ofan af njósnurunum í Bandaríkjunum. Sagði hann að sá upplýsingaleki væri landráð og svikarar fengju alltaf ill örlög. „Þeir verða á endanum fylliraftar, fíklar og lenda á götunni," sagði hann.  

Vangaveltur hafa verið um að fyrrverandi rússneskur njósnari, Sergei Tretjakov, sem flúði land til Bandaríkjanna árið 2000, hafi veitt Bandaríkjamönnum upplýsingar um njósnarahópinn. Hann lést af völdum hjartaáfalls í júní, 53 ára að aldri, en ekki var sagt frá dauða hans fyrr en 9. júlí, sama dag og njósnaraskipti Rússa og Bandaríkjamanna fóru fram.

Pútín sagði, að njósnararnir 10, sem sendir voru til Rússlands, hefðu átt erfitt líf í Bandaríkjunum en vel yrði séð fyrir þeim í Rússlandi. 

Anna Chapman.
Anna Chapman.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert