Rannsókn hafin í Duisburg

Hér sést hve mannþröngin var gríðarleg við göngin, þar sem …
Hér sést hve mannþröngin var gríðarleg við göngin, þar sem 19 manns létust í gær. Reuters

Rannsókn er hafin á slysinu á Ástargöngunni í Duisburg í Þýskalandi í gær, þegar fjöldi ungs fólks tróðst undir á leið til tónlistar- og danshátíðarinnar. Fjöldi látinna er kominn í 19 og um 350 eru slasaðir. Um 1,4 milljónir gesta voru á hátíðinni sem hélt áfram þrátt fyrir harmleikinn.

Slysið varð er mannfjöldinn tróð sér í gegnum undirgöng á gamalli lestarstöð fyrir fraktflutninga. Göngin eru um 200 metrar á breidd og 30 metra breið. Svo virðist sem skelfing hafi gripið um sig er fólk reyndi að troðast áfram og komast úr göngunum undir bert loft. Tróðust þá sumir undir og að sögn sjónarvotta krömdust aðrir upp að gangaveggnum.

Hvar sem við litum í ösinni var fólk orðið blátt í framan," segir ung stúlka við þýska blaðið Die Welt, en hún varð vitni að atvikinu. „Kærasti minn náði að draga mig yfir fólkið og út úr þrönginni, annars hefðum við bæði dáið þarna. Ég get aldrei gleymt dauðasvipnum á andliti þessa fólks."

Af ótta við að enn frekari skelfing breiddist út meðal hátíðargesta Ástargöngunnar ákváðu yfirvöld ekki að rýma svæðið eða greina frá slysinu í hátalarakerfum. Sjúkralið átti í erfiðleikum með að komast að hinum slösuðu og athafna sig á vettvangi, er hátíðin stóð sem hæst.

Yfirvöld í Duisburg segja að ítarleg rannsókn fari fram á því hvað gerðist en fyrstu viðbrögð voru þau að segja að í gær hafi verið unnið eftir þeim öryggisáætlunum sem lágu fyrir. Þrátt fyrir það er komin fram gagnrýni í Þýskalandi á skipuleggjendur hátíðarinnar og lögregluyfirvöld fyrir það hvernig umferð fólks var stjórnað á svæðinu.

Einn hinna um 350 gesta sem slösuðust fluttur á sjúkrahús …
Einn hinna um 350 gesta sem slösuðust fluttur á sjúkrahús í Duisburg. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert