Grunur um barnamorð í Edinborg

Frá Edinborg
Frá Edinborg Árni Sæberg.

Skoska lögreglan yfirheyrir nú Theresu Riggi, móður barnanna sem létust í meintri gassprengingu í Edinborg í gær, samkvæmt frétt á vef BBC.

Dauði þeirra er talinn grunsamlegur og verða lík barnanna krufinn auk þess sem viðamikil rannsókn stendur yfir á vettvangi. 

Haft er eftir lögreglu að þegar að niðurstöður krufningar liggi fyrir komi í ljós hvort um morðrannsókn sé að ræða.

Börnin létust í eldsvoða sem í fyrstu var rakinn til gassprengingar. Móðir þeirra fannst slösuð fyrir utan húsið og var sögð hafa stokkið af svölum hússins.

Greiðlega gekk að slökkva eldinn í íbúð Theresu og reyndist hann lítill og staðbundinn, auk þess sem litlar sem engar skemmdir reyndust hafa orðið á húsinu, ólíkt því sem gerist vanalega við gassprengingu.

Gasveitan á svæðinu greip strax til ráðstafanna en ekkert athugavert kom í ljós við gasflutning til hússins.

Foreldrar hinna átta ára tvíbura, Luca og Austin, og hinnar fimm ára Ceciliu standa í skilnaði og áttu í harðvítugri forræðisdeilu.

Lýst var eftir Theresu og börnunum í síðasta mánuði, þegar þau hurfu frá heimili sínu í Aberdeen. Stuttu síðar bárust fréttir af þeim heilum á húfi í Edinborg.

Theresa Riggi átti að mæta fyrir fjölskyldurétt vegna skilnaðarmálsins á þriðjudag en mætti ekki og var dómara tjáð að enn á ný væri óvíst hvar hún héldi sig.

Lögmaður föðurins tjáði réttinum að hann teldi brýna þörf á neyðarráðstöfunum vegna öryggis barnanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert