Afskræmd afgönsk stúlka fær ókeypis lýtaaðgerð

Misþyrmt andlit Aishu birtist á forsíðu Time Magazine.
Misþyrmt andlit Aishu birtist á forsíðu Time Magazine.

Afgönsk stúlka sem kom fram í umdeildri grein í Time Magzine, þar sem andlit afskræmt andlit hennar var birt á forsíðu, er nú stödd í Bandaríkjunum til að gangast undir lýtaaðgerð. Stúlkan, Aisha, sagði sögu sína í Time en eiginmaður hennar, með samþykki talíbanastjórnarinnar, skar af henni nef hennar og eyru til að refsa henni fyrir að flýja heimili þeirra.

Forsíða blaðsins, með fyrirsögninni „Það sem gerist ef við yfirgefum Afganistan" og myndbirtingin af andliti stúlkunnar var afar umdeild. Eftirnafn Aishu, sem er aðeins 18 ára gömul, hefur aldrei verið gefið upp en hún var að sögn gefin frá fjölskyldu sinni í barnæsku til að greiða "blóðskuld" og var í kjölfarið þvinguð til að giftast skæruliða úr röðum talíbana. Hún varð fyrir ofbeldi af hendi fjölskyldunnar og flúði á brott en náðist á flótta og var í kjölfarið misþyrmt af eiginmanninum.

Það eru samtökin Grossman Burn Foundation í Kaliforníu sem bjóða Aishu lýtaaðgerðina, en samtökin berjast gegn kynbundnu ofbeldi auk þess að bjóða fórnarlömbum þess ókeypis lýtaaðgerðir.  Saga Aishu hefur verið notuð til að varpa ljósi á mögulegar afleiðingar þess að Bandaríkin, Bretland og bandamenn þeirra dragi herlið sitt varanlega frá Afganistan.

Gagnrýnendur eru hinsvegar efinst um tóninn sem var sleginn á forsíðu Time og segja m.a. að með fyrirsögninni sé verið að misnota kynjabaráttuna og beita tilfinningalegri kúgun til að viðhalda viðveru bandaríska hersins í Afganistan.  Þeir benda m.a. á að Aisha hafi orðið fyrir hinu grófa ofbeldi á sama tíma og Bandaríkjaher var í landinu og því sé rökvilla að halda því fram að ástandið verði verra ef þeir fari. Aisha samþykkti hinsvegar sjálf að sitja fyrir á forsíðumynd Time þar sem hún vildi að umheimurinn fengi að sjá afleiðingar ofríkis talíbana á konur í Afganistan.

Aisha hittir lýtalækninn Peter Grossman í næstu viku til að undirbúa gerð nýs nefs á andlit hennar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert