Enn ekkert spurst til kajakræðara á Grænlandi

Kajakræðari á sjó.
Kajakræðari á sjó. Brynjar Gauti

Enn hefur ekkert spurst til kajakræðaranna fjórtán, sem týndir eru við austurströnd Grænlands, að sögn lögreglunnar í Scoresbysundi, eða Illoqqortoormiit eins og það heitir á frummálinu. Lýst var eftir fólkinu í gær, eftir að það hafði lent í miklu óveðri sem skall á austurströndinni.

Komið hefur í ljós að ferðafólkið hafði ekki gert neinar ráðstafanir til þess að láta vita af sér reglulega. „Það þýðir í raun að við getum ekki formlega sagt sem svo að kajakræðaranna sé saknað,” segir Peter Holst-Andersen, sem stjórnar leitarskipinu Ejnar Mikkelsen. Skipið siglir nú í átt til Rauðafjarðar þar sem helst er talið að fólkið hafist við.

Ekki er enn ljóst hverrar þjóðar allt fólkið er sem leitað er að.

„Þögn fjórtánmenninganna gæti allt eins þýtt að þeim heilsist vel og að þau hafi ekki hugmynd um að við erum að leita að þeim. Kannski vita þau ekki einu sinni að það var óveður á svæðinu. Það vitum við ekki,” segir Holst-Andersen.

„Þar til við fáum nýjar upplýsingar höldum við okkur við þessa áætlun og stefnum á að vera í Rauðafirði á fimmtudag um klukkan 10.30,” bætir hann við. „Þegar við komum að Scoresbysundi reiknum við með að fá einhverjar fréttir og vonum að þá verði allt búið að skýrast og að fólkið verði búið að láta vita af sér.”

Talið er að um 26 ræðarar hafi verið í Scoresbysundi þegar óveðrið skall á. Sex Þjóðverjum var meðal annars flogið til Íslands og svo áleiðis heim til sín, eftir að þeir fundust nokkuð kaldir og hraktir eftir óveðrið og höfðu tapað útbúnaði sínum.

Sex aðrir hafa sett sig í samband við lögregluna í Illoqqortoormiit, en ekkert hefur spurst til þessara fjórtán.

„Við höldum ótrauð í Rauðafjörð en í dag vonumst við til að fá leitarþyrlu og Challenger-vél í loftið. Ef það skilar engum árangri og við heyrum ekkert frá fólkinu, siglum við inn í fjörðinn, en þar er mjög erfitt að leita að fólki af skipinu,” segir Holst-Andersen við blaðamann politiken.dk.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert