19 naglar fjarlægðir úr konu

Röntgen sýnir nagla í annarri hönd konunnar.
Röntgen sýnir nagla í annarri hönd konunnar. Reuters

Kona er nú á batavegi á Srí Lanka eftir að skurðlæknar fjarlægðu í vikunni 19 nagla og eina nál úr líkama hennar. Konan starfaði sem þjónustustúlka hjá ríkri fjölskyldu í Sádi-Arabíu og sagði að húsbóndi sinn hefði neglt 24 nagla í líkama hennar í refsingarskyni.

Naglarnir voru allt að 2 tommur, rúmir 5 sentimetrar á lengd og voru í handleggjum og fótleggjum konunnar og í enni hennar.   Prabath Gajadeera, forstjóri sjúkrahússins þar sem aðgerðin fór fram, hafði eftir konunni að fjölskyldan í Sádi-Arabíu hefði neglt naglana í konuna í refsingarskyni en fólkinu fannst konan ekki nægilega samvinnufús.

Konan, sem heitir L.T. Ariyawathi og er 49 ára gömul, sagði við blað á Srí Lanka, að húsmóðirin hefði hitað naglana og húsbóndinn hefði síðan neglt þá í líkama sinn. „Þegar ég æpti af sársauka munduðu börnin sjö hnífa og hótuðu að drepa mig," hafði blaðið eftir konunni.  

Konan var lögð inn á sjúkrahús á Srí Lanka um síðustu helgi eftir að hún kom heim frá Sádi-Arabíu. Sagðist konan var mjög kvalin og ekki geta gengið. Læknar fjarlægðu 13 stóra nagla og 6 minni en urðu að skilja  fimm eftir vegna þess að hætta var talin á að taugar myndi skaðast ef þeir yrðu fjarlægðir. 

Læknar segja útilokað að konan hafi limlest sig sjálf því talsvert afl hafi þurft til að negla naglana í útlimi konunnar.

Embættismenn segja, að konan muni fá yfir 3000 dala styrk, 360 þúsund krónur, úr sjóði sem ætlað er að styðja við farandverkamenn frá Srí Lanka sem sæta illri meðferð í útlöndum.

Ariyawathi en þriggja barna móðir, sem ákvað að leita sér að vinnu í Sádi-Arabíu í þeirri von að afla fjár til að endurnýja leirhús sem hún býr í.  Konan sagði við dagblaðið, að hjónin, sem hún vann hjá, hefðu misþyrmt henni reglulega og eftir þrjá mánuði hefðu þau rekið hana á dyr og krafist þess að vinnumiðlunin tæki við henni aftur.

Stjórnvöld á Srí Lanka eru nú að rannsaka málið. Sendiráð landsins í Riyadh hefur vakið athygli þarlendra stjórnvalda á því með óformlegum hætti en reiknað er með því að formleg tilkynning verði send á næstunni þegar lögregla hefur lokið rannsókn heima fyrir.   

Með 24 nagla í líkamanum

L.T. Ariyawathi á sjúkrahúsi í Srí Lanka.
L.T. Ariyawathi á sjúkrahúsi í Srí Lanka. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert