Víðtæk mótmæli boðuð í Frakklandi

Lögregla rýmir ólöglegar sígaunabúðir í Mons
Lögregla rýmir ólöglegar sígaunabúðir í Mons Reuters

Mótmæli hafa verið skipulögð víða um Frakkland í dag vegna þeirrar stefnu stjórnvalda að senda sígauna úr landi. Eru það samtök gegn kynþáttahatri sem standa að mótmælunum. Eiga þau von á því að í París muni yfir 30 þúsund manns taka þátt í mótmælunum.

Ákvörðun stjórnvalda að jafna ólöglegar búðir sígauna við jörðu og greiða sígaunum fé fyrir að yfirgefa landið hefur vakið hörð viðbrögð víða. Meðal annars hefur kaþólska kirkjan mótmælt sem og mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna. En þrátt fyrir það þá styður ríflega helmingur frönsku þjóðarinnar þessar aðgerðir stjórnvalda, samkvæmt frétt BBC.

Frönsk stjórnvöld segja aftur á móti að enginn sem ekki hefur gerst brotlegur við lög sé rekinn úr landi heldur fari sígaunarnir af fúsum og frjálsum vilja, flestir til Rúmeníu og Búlgaríu þaðan sem þeir koma.

Talið er að yfir eitt þúsund sígaunar hafi yfirgefið Frakkland með þessum hætti í síðasta mánuði. Samkvæmt opinberum tölum var 11 þúsundum sígaunum vísað úr landi í fyrra.

Alls hafa mótmæli verið skipulögð á 138 stöðum í Frakklandi í dag en í París hefst gangan klukkan 14 að staðartíma, 12 að íslenskum tíma.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert