Natascha Kampusch las upp úr bók sinni

Natascha Kampusch er 22 ára gömul í dag.
Natascha Kampusch er 22 ára gömul í dag.

Natascha Kampusch, sem var í haldi mannræningja í 8 á hálft ár frá 10 ára aldri, gagnrýnir lögregluna í Austurríki og meðhöndlun þeirra á málinu í ævisögu sinni sem komu út í vikunni. „Ég komst fyrst að því eftir að ég flúði hversu litlu munaði að mannræninginn hefði verið handtekinn á sínum tíma, ef málið hefði bara verið tekið alvarlega," skrifar Kampusch, sem nú er 22 ára.

284 blaðsíðna sjálfsævisaga hennar, sem ber heitið „3.096 dagar", hefur rokið út eins og heitar lummur í Austurríki í vikunni og í kvöld mættu hundruð manna til að hlýða á upplestur hennar úr völdum köflum í bókabúð í Vínarborg. Kampusch segist hafa verið mikill aðdáandi lögregluþátta þegar hún var 10 ára og að í prísundinni, 5 fermetra kjallara í húsi Wolfgang Priklopil, hafi hún löngum stundum látið dreyma um hvernig lögreglan gerði allt sem í hennar valdi stæði til að finna hana og bjarga, með hjálp DNA sýna og efnisbúta úr fötum hennar.

Leið eins og glæpamanni

„En lögreglan gerði ekkert slíkt. Hún bað Priklopil afsökunar á ónæðinu og fór án þess að aðgæta nánar bíl hans eða hús," skrifar hún. Aðeins örfáum dögum eftir að Kampusch hvarf yfirheyrði lögregla mannræningja hennar og skoðaði bílinn sem hann var í þegar hann rændi henni, en jafnvel þótt hann hefði enga fjarvistarsönnun vöknuðu engar grunsemdir hjá lögreglu. Þá kvartar Kampusch undan því að lögreglan hafi komið fram við hana eins og glæpamann þegar hún flýði loksins árið 2006. Lögregla kom þá að henni þar sem hún hnipraði sig saman í garði nágranna, af ótta við að Priklopil fyndi hana, og skipaði lögreglan henni að „halda kyrru fyrir og lyfta upp höndum". „Það var ekki þannig sem ég sá fyrir mér að fyrstu stundir frelsisins yrðu. Standandi upp við limgerði með hendurnar í loft upp eins og glæpamaður, þannig útskýrði ég fyrir lögreglu hver ég væri."

Minnist aldrei á kynferðisofbeldi

Kampusch lýsir því einnig í bókinni hvernig hún hafi grátið þegar hún heyrði að Priklopil hefði kastað sér fyrir lest daginn sem hún slapp. „Með flóttanum hafði ég ekki aðeins öðlast frelsi undan kvalara mínum, ég hafði um leið misst mann sem var mér óhjákvæmilega mjög náinn." Hún segir að ást Priklopils á henni hafi verið sjúk, hann hafi „viljað einhvern sem sæi hann sem það mikilvægasta í öllum heiminum. Hann virtist ekki vita um neina aðra leið til þess en að ræna 10 ára gamalli stúlku."

Aðspurð á upplestrinum hvers vegna hún hafi reynt svo mjög að draga fram mennskar hliðar á manni sem kvaldi hana og beitti ofbeldi í tæp 9 ár svaraði Kampusch: „Það var nógu þunglyndislegt í kjallaranum fyrir. Hatur á kvalara mínum hefði drepið mig."

Hún segist þó ekki bera neinar hlýjar tilfinningar til Priklopil og lýsir honum gjarnan sem vænisjúkum og stjórnsömum furðufugli sem hafi verið haldin kvenhatri og að öllum líkindum átröskun.  Kampusch lýsir opinskátt í bókinni því ofbeldi sem Priklopil beitti hana, en minnist hinsvegar hvergi á kynferðisofbeldi. Aðspurð um hverju því sæti svaraði hún: „Ég vil gjarnan halda eftir örlitlu einkalífi fyrir mig."

Inngangur í kjallarann þar sem Natöschu var haldið nauðugri í …
Inngangur í kjallarann þar sem Natöschu var haldið nauðugri í 8 og hálft ár. HO
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert