Ekki um hryðjuverk að ræða

Danska lögreglan gerir sprengjuleit við Jørgensen hótelið í dag.
Danska lögreglan gerir sprengjuleit við Jørgensen hótelið í dag. SCANPIX DENMARK

Líklega var ekki um misheppnaða tilraun til hryðjuverks að ræða þegar sprengja sprakk á hóteli í Kaupmannahöfn í dag. Lögregla rannsakar málið engu að síður sem glæp. Ríkisstjórn Danmerkur ákvað í kvöld að ekki væri tilefni til að setja af stað neyðaráætlun vegna hryðjuverka.

Samkvæmt heimildum Berlingske Tidende hafa ráðherrar verið upplýstir um að engin sprengiefni hafi fundist á unga manninum sem lá særður klukkustundum saman í Ørstedsparken í miðborg Kaupmannahafnar í dag.

Varnarmálaráðuneytið mun hafa gefið út þær upplýsingar að ekki virðist vera um íslamista að ræða eða skipulögð hryðjuverk en að maðurinn hafi samt sem áður haft eitthvað misjafnt í huga. Ríkisstjórnin mun því ekki koma saman og utanríkisráðherrann, Lene Espersen, verður um kyrrt í Brussel þar sem hún snæðir kvöldverð í kvöld með kollegum sínum í Evrópusambandinu.

Sú staðreynd að maðurinn, sem gisti á Jørgensen hótelinu áður en sprengjan sprakk, hafi notast við fölsuð persónuskilríki breytir ekki þeirri niðurstöðu lögreglu að ekki sé um hryðjuverkamann að ræða að sögn Berlingske Tidende. Það hefur þó enn ekki verið formlega verið tilkynnt. Talið er að maðurinn sé frá Belgíu, en hann hafði meðferðis tvenns konar skilríki með ólíkum persónuupplýsingum.

Mikill viðbúnaður var í Kaupmannahöfn síðdegis í dag og í kvöld vegna sprengjunnar, sem sprakk inni á salerni Jørgensen hótelsins við Ísraelstorg í miðborg Kaupmannahafnar. Maðurinn flýði í kjölfarið blóðugur í nærliggjandi almenningsgarð, Ørstedsparken, þar sem hann var handtekinn. Garðurinn og nánasta umhverfi er enn innsiglað af lögreglu og þurfa 9 nágranna hótelsins að gista annars staðar þar sem þeim verður ekki hleypt heim til sín í nótt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert