Frambjóðandi Teboðsins sigraði

Christine O'Donnell, sem tengist svonefndri Teboðshreyfingu á hægrivæng bandarískra stjórnmála, sigraði óvænt í forkosningum Repúblikanaflokksins í Delaware vegna væntanlegra þingkosninga.  

O´Donnell keppti við Mike Castle í forkosningunum en Castle hefur setið í fulltrúadeild Bandaríkjaþings í 18 ár og naut stuðnings flokksforustunnar. Hann bauð sig nú fram í öldungadeildina í sæti sem Joe Biden, núverandi varaforseti Bandaríkjanna, sat lengi í.

O'Donnell er nánast óþekkt. Í kosningabaráttunni kom fram, að hún hefði orðið uppvís að fjármálabrotum en henni tókst að virkja óánægju kjósenda með kerfið og þá naut hún einnig stuðnings Söruh Palin, fyrrverandi varaforsetaefni repúblikana.

Þessi úrslit gera það hins vegar að verkum, að mati stjórnmálaskýrenda, að demókratar eiga möguleika á að halda öldungadeildarsæti sínu í Delaware.  Nýlegar skoðanakannanir bentu til þess, að Castle myndi sigra Chris Coons, frambjóðanda demókrata en jafnframt að Coons myndi sigra ef O'Donnell yrði frambjóðandi repúblikana. 

Christine O'Donnell.
Christine O'Donnell. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert