Noregur þvingaður til að birta áfengisauglýsingar?

Áfengisauglýsingar eru bannaðar í Noregi.
Áfengisauglýsingar eru bannaðar í Noregi. Heiðar Kristjánsson

Norski vefmiðillinn E24 segir frá því í dag að Evrópusambandið reyni nú að þvinga Norðmenn til að birta áfengisauglýsingar, sem sendar eru út frá öðrum löndum en beinast að norskum markaði. Samkvæmt reglugerð sem sett var fyrir þremur árum í ESB mega lönd ekki banna áfengisauglýsingar ef þeim er sjónvarpað frá öðru landi, eins og í tilfelli stöðvarinnar TV3, sem sendir út frá London. Slíkt stangast þó á við norsk lög.

Noregur er að sögn E24 að tapa baráttunni þar sem reglugerðin verður brátt tekin upp innan EES. Sendiherra Noregs gagnvart ESB átti fyrir 2 vikum fund með framkvæmdastjórn ESB þar sem hann fékk afdráttarlaus skilaboð þess efnis að Noregur verði að beygja sig undir reglugerðina hið fyrsta og að óskum um undanþágu verði hafnað. Haft er eftir heimildarmanni Aftenposten að komið hafi til hvassra orðaskipta vegna málsins.

Erik Lahnstein, ráðuneytisstjóri í norska utanríkisráðuneytinu, segir að málið sé sérstaklega erfitt fyrir Noreg. „Ríkisstjórnin íhugar nú hvað gera skuli eftir þessi harkalegu viðbrögð framkvæmdastjórnar ESB. Spurningin er hvort við aðlögum okkur að stöðunni, eða tökum þá áhættu að tapa málinu."

Upphaflega óskuðu Norðmenn eftir því að fá að efla enn frekar bann gegn áfengisauglýsingum í landinu þannig að það nái yfir netmiðla og taki einnig til auglýsinga um fjárhættuspil. Öll ríki ESB styðja hinsvegar reglugerðina að sögn E24 og því erfitt fyrir Noreg að ætla að fá undanþágu að sögn Lahnstein.

Í Noregi eru áfengisauglýsingar bannaðar með lögum, með svipuðum hætti og á Íslandi. Árið 2005 kvað EFTA-dómstóllinn upp það álit, þegar norska Markaðsráðið leitaði til hans, að almennt bann við áfengisauglýsingum feli í sér höft á frjálsum vöruflutningum og þjónustu skv. EES-rétti, þar sem slíkt bann geti hugsanlega heft markaðsaðgang vara frá öðrum EES-löndum meira en innlendra vara. Einnig að bannið hefti rétt útgefanda til að selja auglýsendum í öðrum EES-löndum auglýsingarými í blöðum og tímaritum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert