Snýst um sannleikann

Julian Assange, aðalritstjóri vefjarins WikiLeaks, sagði á blaðamannafundi í Lundúnum í dag, að birting nærri 400 þúsund skjala um hernaðaraðgerðir Bandaríkjamanna í Íran, snérist um sannleikann, sem oftast væri fyrsta fórnarlamb stríðsátaka.

„Við vonumst til að hrinda hluta árásanna, sem gerðar voru á sannleikann áður en stríðið hófst, meðan á því stóð og hafa haldið áfram síðan stríðinu var formlega lokið," sagði Assange. 

Kristinn Hrafnsson, fréttamaður, var meðal fulltrúa WikiLeaks á fundinum. Hann sagði, að þegar WikiLeaks birti skjöl í sumar um hernaðinn í Afganistan og þá hefðu bandarísk stjórnvöld sagt að skjölin stofnuðu lífi hermanna og óbreyttra borgara í hættu þar í landi. Engar fréttir hefðu hins vegar borist af því að það hefði orðið raunin. Til stæði að birta 15 þúsund skjöl til viðbótar um Afganistan bráðlega.

Kristinn sagði að WikiLeaks hefði farið gaumgæfilega yfir þau skjöl, sem birt voru í gærkvöldi  og teldi sig hafa gengið úr skugga um, að þau  innihéldu engar upplýsingar sem gætu stofnað einstaklingum í Írak í hættu.  

Assange sagði, að sterk viðbrögð hefðu orðið víða um heim við þeim skjölum, sem birt voru í gærkvöldi.

Fram kom á fundnum, að Iraq Body Count, óháð bresk stofnun sem  hefur reynt að fylgjast með mannfalli í Írak frá því innrásin var gerð í landið í mars 2003, hafi farið yfir gögnin, sem WikiLeaks birti. Hefur stofnunin komist að þeirri niðurstöðu, að 15 þúsund fleiri óbreyttir borgarar hafi látið lífið en áður var talið eða um 122 þúsund. Þá komi á óvart, að Bandaríkjaher hafi lagt sig fram við að skrá nöfn þeirra Íraka, sem létu lífið.

Vefur WikiLeaks

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert